03. mars 2016
Á stjórnarfundi þann 3. mars 2016, samþykkti stjórn og forstjóri ársreikning samstæðu Kviku banka hf. fyrir árið 2015.
Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku:
„Árið 2015 var viðburðaríkt og markað af sameiningu MP banka hf. og Straums fjárfestingabanka hf. undir merkjum Kviku banka hf. Það er krefjandi verkefni að sameina tvö öflug fyrirtæki í eitt og mæddi mikið á starfsfólki Kviku sem stóð sig frábærlega. Rekstrarleg markmið samrunans hafa náðst, strax á fyrsta ári hans. Rekstrarkostnaður er um 14% lægri en hann var sameiginlega fyrir samrunann. Sameiginlegur fjárhagslegur styrkur er umtalsvert meiri eins og há eiginfjár- og lausafjárhlutföll bera vott um. Fjárfestar og innlánseigendur hafa tekið Kviku mjög vel. Innlán jukust á árinu, við hófum víxlaútgáfu og vorum fyrsti bankinn eftir fjármálakreppu til að selja og skrá á markað víkjandi skuldabréf.“
Góð afkoma af reglulegri starfsemi
Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 685 m.kr. á árinu og arðsemi virks eiginfjár 11% þegar leiðrétt hefur verið fyrir samruna- og einskiptiskostnaði. Síðari helmingur ársins var bankanum hagfelldur en þá nam hagnaður af reglulegri starfsemi 464 m.kr. og arðsemi eiginfjárþáttar A var 15,1% á tímabilinu.
Í kjölfar samrunans var ráðist í umtalsverðar hagræðingaraðgerðir sem styrkja munu rekstur bankans á komandi árum. Af þeim sökum er afkoma Kviku á síðasta ári lituð af samruna- og einskiptiskostnaði en að teknu tilliti til hans nam tap bankans 483 m.kr. eftir skatta. Hafa ber í huga að samruninn skekkir samanburð á milli ára og samanburðartölur í ársreikningi ná aðeins til MP banka nema annað sé tekið fram.
Hreinar þóknanatekjur námu 2.608 m.kr. á árinu og hækkuðu um 878 m.kr. frá fyrra ári eða um 51%. Hreinar vaxtatekjur námu 1.124 m.kr. samanborið við 1.302 m.kr. árið 2014. Lækkunin skýrist m.a. af hærra hlutfalli lausafjáreigna og lengri fjármögnun bankans sem endurspeglast í mikilli hækkun lausafjárhlutfalls. Vaxtamunur útlána á síðasta ári var 3,4%.
Sterk fjárhagsleg staða í árslok
Í árslok 2015 námu heildareignir samstæðu Kviku 61.614 m.kr. samanborið við 49.344 m.kr. í lok árs 2014 og nemur hækkunin um 25%. Áhættuvegnar eignir námu 28.477 m.kr. eða einungis 46,2% af heildareignum. Vegna endurgreiðslna og sölu útlána drógust heildarútlán lítillega saman á milli ára. Þau námu 21.593 m.kr. í árslok samanborið við 22.287 m.kr. árið 2014. Hlutfall lána í vanskilum umfram 90 daga er stöðugt og áfram lágt miðað við samanburðaraðila, 0,6% í lok árs.
Lausafjárstaðan er sem áður mjög góð og var lausafjárþekjan (LCR) 199% í lok árs sem er langt umfram kröfu eftirlitsaðila um 80% lágmarksþekju. Heildarinnlán jukust um 1.783 m.kr. milli ára en þau námu 31.259 m.kr. í árslok 2015 samanborið við 29.476 m.kr. árið áður.
Bankinn styrkti fjármögnun sína á árinu og gaf út víxla og víkjandi skuldabréf að andvirði 5.770 m.kr. Tveir flokkar víxla og víkjandi skuldabréf bankans voru tekin til viðskipta á Nasdaq Iceland og nam nafnverð útistandandi skráðra verðbréfa 4.550 m.kr. í lok árs.
Handbært fé í árslok nam 19.917 m.kr. sem er hækkun um 6.947 m.kr. á árinu og aðrar lausafjáreignir námu 17.812 m.kr. Hlutfall lausafjáreigna og handbærs fjár af heildarskuldum bankans í árslok nam 68%.
Eigið fé jókst umtalsvert á árinu, einkum vegna sameiningarinnar. Virkt eigið fé var 6.379 m.kr. í lok árs og jókst um 1.610 m.kr. á árinu. Víkjandi fjármögnun var 552 m.kr. í lok árs eftir útgáfu bankans á víkjandi skuldabréfi á síðari árshelmingi. Eiginfjárhlutfall bankans hækkaði mikið á árinu og var 23,5% í lok árs samanborið við 17,4% í árslok 2014. Eiginfjárstaðan er því sterk og vel umfram lágmarkskröfu eftirlitsaðila um 11,8% eiginfjárhlutfall.
Það helsta úr starfsemi bankans