08. apríl 2019
Í nóvember undirrituðu Kvika banki hf. („Kvika“) og hluthafar GAMMA Capital Management hf. („GAMMA“) samning um kaup og sölu á öllu hlutafé GAMMA. Viðskiptin voru m.a. háð fyrirvara um samþykki eftirlitsaðila sem var nýlega veitt. Markmið Kviku með kaupunum er að styrkja bankann enn frekar á sviði eigna- og sjóðastýringar.
Kvika er sérhæfður banki sem er leiðandi í eignastýringu og fjárfestingastarfsemi. Eigna- og sjóðastýring fer fram á eignastýringarsviði Kviku og dótturfélögum bankans, Júpíter og GAMMA.
Í kjölfar kaupanna er stefnt að því að breyta skipulagi og verkaskiptingu með það að markmiði að bæta þjónustu við viðskiptavini, auka vöruframboð og ná fram samlegð í rekstri. Samkvæmt þessum áherslum munu sjóðir og starfsmenn færast milli félaga í samræmi við reglur þeirra og lög sem um þá gilda.
Stefnt er að því að í eignastýringu bankans verði einkabankaþjónusta, sérhæfð eignastýring, viðskiptaþróun, þjónusta vegna sjóða samstarfsaðila og framtaksfjárfestingar.
Í Júpíter verða reknir sjóðir sem fjárfesta einkum í skráðum hlutabréfum og skuldabréfum auk óskráðra skuldaskjala.
Í GAMMA verða einkum reknir sjóðir sem hafa fjárfest í fasteignum og lóðum. GAMMA mun einnig leggja áherslu á að halda áfram að þróa og kynna sérhæfðari fjárfestingakosti.
Sömu framkvæmdastjórar verða í félögunum og áður. Hannes Frímann Hrólfsson er framkvæmdastjóri eignastýringarsviðs Kviku, Valdimar Ármann er framkvæmdastjóri GAMMA og Ragnar Páll Dyer er framkvæmdastjóri Júpíter.
Þrír starfsmenn GAMMA munu flytjast til eignastýringar Kviku. Jónmundur Guðmarsson mun taka við nýju starfi innan Eignastýringar sem forstöðumaður sölu og viðskiptatengsla. Auk hans munu Sigurður Kr. Sigurðsson og Haukur Þór Hauksson ganga til liðs við einkabankaþjónustu Kviku.
Stefnt er að því að Agnar Tómas Möller, Guðmundur Björnsson og Sverrir Bergsteinsson og þeir sjóðir sem þeir stýra færist til Júpiter frá GAMMA. Agnar og Guðmundur verða forstöðumenn hjá Júpíter ásamt Þorkeli Magnússyni og Erlendi Davíðssyni.
Ásgeir Baldurs sem starfað hefur sem forstöðumaður sérhæfðra fjárfestinga á eignastýringarsviði Kviku flyst til GAMMA og verður staðgengill framkvæmdastjóra. Auk hans er stefnt að því að Jón Þór Gunnarsson, Sveinn Hreinsson og Daníel Þór Magnússon flytjist til GAMMA.
Starfsemi dótturfélaga GAMMA og Kviku í London hefur verið sameinuð undir stjórn Gunnars Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Kviku Securities.
Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku:
Kaup Kviku á GAMMA efla verulega eigna- og sjóðastýringu Kviku og gefa bankanum tækifæri til þess að auka sérhæfingu með það að markmiði að ná betri árangri fyrir viðskiptavini. Kaupin hafa jafnframt jákvæð áhrif á vænta arðsemi bankans.
Samanlagðar eignir í stýringu hjá Kviku og rekstrarfélögum í eigu bankans eru yfir 400 milljarðar króna eftir kaup Kviku á GAMMA.
Nánari upplýsingar veita:
Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku
Valdimar Ármann, framkvæmdastjóri GAMMA Capital Management
Hannes Frímann Hrólfsson, framkvæmdastjóri eignastýringar Kviku
Ragnar Páll Dyer, framkvæmdastjóri Júpiter