13. maí 2022

Afkoma Kviku banka á fyrsta ársfjórðungi 2022

  • Hagnaður fyrir skatta nam 1.740 milljónum króna
  • Arðsemi vegins efnislegs eigin fjár fyrir skatta var 16,1%
  • Hagnaður á hlut nam 0,31 kr. á tímabilinu
  • Heildareignir námu 286 milljörðum króna
  • Eigið fé samstæðunnar var 80 milljarðar króna
  • Gjaldþolshlutfall fjármálasamsteypunnar var 1,32 og eiginfjárhlutfall samstæðunnar án tryggingastarfsemi (CAR) var 26,2% í lok tímabilsins, án ókannaðs hagnaðar fjórðungsins
  • Heildar lausafjárþekjuhlutfall (LCR) samstæðunnar var 247%
  • Heildareignir í stýringu námu 497 milljörðum króna

Hagnaður samstæðu Kviku fyrir skatta á fyrstu þremur mánuðum ársins 2022 nam 1.740 milljónum króna sem var í fullu samræmi við afkomuspá fjórðungsins. Arðsemi vegins efnislegs eigin fjár (e. return on weighted tangible equity) fyrir skatta var 16,1% á tímabilinu.

Hreinar vaxtatekjur samstæðu Kviku námu 1.571 milljónum króna og jukust um 148% miðað við sama tímabil árið áður og má aukningu vaxtatekna helst skýra með stækkun og breyttri samsetningu lánasafns vegna samruna við Lykil fjármögnun, breyttri samsetningu lausafjáreigna ásamt hagstæðri þróun fjármagnskostnaðar. Hrein virðisrýrnun nam 38 milljónum króna á tímabilinu samanborið við 11 milljónir á fyrstu þremur mánuðum ársins 2021. Hreinar fjárfestingartekjur námu 808 milljónum króna við krefjandi aðstæður á eignamörkuðum. Hreinar þóknanatekjur námu 1.642 milljónum króna sem er 2,5% lækkun frá fyrra ári. Rekstrarkostnaður nam 3.165 milljón króna á fyrstu þremur mánuðum ársins sem var í samræmi við áætlanir.

Samsett hlutfall TM lægra og ávöxtun fjáreigna dregst saman

Samsett hlutfall TM nam 101,0% á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 102,5% á sama tímabili árið á undan. Fjárfestingartekjur tryggingafélagsins námu 241 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi og ávöxtun eignasafnsins því 0,7% á tímabilinu samanborið við 5,6% ávöxtun á fyrsta fjórðungi ársins 2021.

Sterkur efnahagur og há lausafjárstaða

Heildareignir samstæðu Kviku jukust um 16% eða 40 milljarða króna á fyrsta fjórðungi 2022 og námu 286 milljörðum króna í lok mars. Útlán til viðskiptavina jukust um rúma 11 milljarða króna á tímabilinu og námu 83 milljörðum króna í lok mars. Aukningin er að mestu til komin vegna kaupa á Ortus Secured Finance Ltd. Innstæður í bönkum og Seðlabanka ásamt ríkistryggðum verðbréfum námu 86 milljörðum króna en heildar lausafjáreignir voru 120 milljarðar króna og jukust um 20 milljarða króna á tímabilinu. Heildar lausafjárþekja (LCR) samstæðunnar án tryggingastarfsemi nam 247% í lok fjórðungsins sem var vel umfram 100% lágmarkskröfu eftirlitsaðila.

Eigið fé samstæðunnar var 80 milljarðar króna í lok tímabilsins samanborið við 78 milljarða króna í lok 2021. Gjaldþolshlutfall fjármálasamsteypunnar var 1,32 í lok fjórðungsins og áhættuvegið eiginfjárhlutfall samstæðunnar (CAR) án áhrifa TM nam 26,2%, en eiginfjárkrafa ásamt eiginfjáraukum eftirlitsaðila er 20,6%. Þessar tölur innihalda ekki ókannaðan hagnað fjórðungsins.

Lánshæfisseinkunn veitt í fyrsta sinn

Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið Moody‘s Investors Service („Moody‘s“) veitti Kviku þann 11. maí 2022 í fyrsta sinn lánshæfismatseinkunnirnar Baa2/Prime-2 í fjárfestingaflokki (e. investment grade) með stöðugum horfum, bæði sem móttakandi innistæða og útgefandi skuldabréfa (e. deposit and issuer rating).

Endurkaupaáætlun samþykkt af aðalfundi í mars 2022

Endurkaupaáætlun að hámarki 3 milljarða króna bíður samþykkis eftirlitsaðila.

Afkomuspá hækkuð

Afkomuspá samstæðu Kviku fyrir næstu fjóra fjórðunga gerir ráð fyrir 8,7 – 9,7 milljarða króna hagnaði fyrir skatta sem samsvarar 19,9% – 22,2% arðsemi á efnislegt eigið fé samstæðunnar. Nánari forsendur má sjá í fjárfestakynningu.

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku:

„Ég er ánægður með fjórðunginn. Á undanförnum árum hefur verið unnið markvisst í því að fjölga og efla tekjustoðir félagsins. Markaðsaðstæður eru meira krefjandi en áður og því er sérstaklega ánægjulegt að sjá í uppgjörinu að sú stefna er að bera ávöxt og afkoma félagsins sé í samræmi við útgefna afkomuspá. Jafnframt er ánægjulegt að ný afkomuspá gerir ráð fyrir áframhaldandi bata í afkomu.

Á fjórðungnum tók félagið stórt skref í uppbyggingu með kaupum á meirihluta hlutafár í breska fasteignalánafélaginu Ortus Secured Finance og varð Ortus hluti af rekstri félagsins í marsmánuði. Í kjölfar kaupanna er starfsemi bankans í Bretlandi orðin fimmta tekjustoð félagsins ásamt tryggingum, eignastýringu, viðskiptabanka og fjárfestingabanka.

Þá var annað mikilvægt skref tekið þegar Kvika fékk afhentar niðurstöður lánshæfismats Moody‘s. Lánshæfismatið er viðurkenning á Kviku sem traustum útgéfanda skuldabréfa og móttakanda innstæða en mikil vinna hefur átt sér stað innan samstæðunnar við að byggja upp stöðu Kviku á erlendum skuldabréfamörkuðum og stykja sambönd við erlenda fjárfesta. Þá er ánægjulegt að sjá að Moody‘s minnist sérstaklega á tekjudreifingu félagsins sem styrkleika. Ég vænti þess að lánshæfismatið hafi jákvæð áhrif á fjármögnunarkjör félagsins og renni með því enn frekari stoðum undir framtíðarstefnu Kviku um að auka samkeppni.“

Til baka