Helstu atriði í afkomu fyrsta ársfjórðungs
- Hagnaður eftir skatta nam 2.086 m.kr. á 1F 2025, samanborið við 1.083 m.kr. á 1F 2024 og eykst um 1.003 m.kr. eða 92,6%.
- Hagnaður fyrir skatta af áframhaldandi starfsemi, leiðréttur fyrir einskiptisliðum, nam 1.590 m.kr. á 1F 2025, samanborið við 1.215 m.kr. á 1F 2024 og hækkar því um 375 m.kr. frá fyrra ári eða 31%. Óleiðréttur hagnaður fyrir skatta á fjórðungnum nam 701 m.kr.
- Hreinar vaxtatekjur námu 2.917 m.kr. á 1F 2025, samanborið við 2.326 m.kr. á 1F 2024 og hækkuðu því um 590 m.kr. frá fyrra ári eða 25,4%.
- Vaxtamunur var 4,4% á 1F 2025, samanborið við 3,8% á 1F 2024. Hækkun vaxtamunar á milli ára skýrist m.a. af sterkri lausafjárstöðu, betri fjármögnunarkjörum og stækkun lánasafns á milli ára.
- Hreinar þóknanatekjur voru 1.520 m.kr. á 1F 2025, samanborið við 1.633 m.kr. á 1F 2024 og lækkuðu því um 113 m.kr. frá fyrra ári eða 6,9%.
- Aðrar hreinar rekstrartekjur námu 12 m.kr. á 1F 2025 samanborið við 110 m.kr. á 1F 2024 og lækkuðu því um 98 m.kr. frá fyrra ári eða 89,1%.
- Rekstrarkostnaður nam 3.090 m.kr. á 1F 2025, samanborið við 2.666 m.kr. á 1F 2024 og eykst um 424 m.kr. frá fyrra ári eða 15,9%. Rekstrarkostnaður leiðréttur fyrir einskiptisliðum nam 2.865 m.kr. á 1F 2025.
- Arðsemi efnislegs eigin fjár (RoTE) fyrir skatta, leiðrétt fyrir einskiptisliðum,var 17,7%. Arðsemi efnislegs eigin fjár fyrir skatta af afkomu samkvæmt rekstrarreikningi var 7,8%.
- Hagnaður á hlut nam 0,45 kr. á 1F 2025, samanborið við 0,23 kr. á 1F 2024.
Afkoma af eignum haldið til sölu:
- Afkoma eigna haldið til sölu eftir skatta samanstendur af hagnaði af sölu TM trygginga hf. auk tengdra tekna og kostnaðar.
Helstu atriði efnahags þann 31.3.2025:
- Innlán frá viðskiptavinum námu 168 ma.kr., samanborið við 163 ma.kr. í lok árs 2024 og jukust um 2,8% á ársfjórðungnum.
- Útlán til viðskiptavina voru 161 ma.kr., samanborið við 150 ma.kr. í lok árs 2024 og jukust um 6,9% á ársfjórðungnum.
- Heildareignir námu 343 ma.kr., samanborið við 355 ma.kr. í lok árs 2024 og minnka um 3,4% á ársfjórðungnum
- Eigið fé samstæðunnar var 68 ma.kr., samanborið við 90 ma.kr. í lok árs 2024 og lækkar verulega í kjölfar sölu á TM en á uppgjörsdegi lá fyrir samþykki
- hluthafafundar fyrir sérstakri arðgreiðslu sem ekki hafði verið greidd út. Arðgreiðslan er færð sem ógreidd arðgreiðsla meðal annarra skulda.
- Eiginfjárhlutfall samstæðunnar (CAR) var 23,9%, samanborið við 22,8% í lok árs
- 2024. Hlutfallið tekur tillit til óendurskoðaðs hagnaðar fjórðungsins en
- eiginfjárhlutfall samkvæmt reglum Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands var 23,0% í lok mars 2025.
- Heildar lausafjárþekjuhlutfall (LCR) samstæðunnar var 279%, samanborið við 360% í lok árs 2024.
- Heildareignir í stýringu námu 441 ma.kr., samanborið við 456 ma.kr. í lok árs 2024.
Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku:
„Rekstur bankans gekk vel á fyrsta ársfjórðungi, að teknu tilliti til einskiptisliða. Hreinar
vaxtatekjur jukust um fjórðung en kostnaður jókst minna og má þar nefna að launakostnaður
jókst um tæp 5%. Annar kostnaður jókst hins vegar á milli ára og litaðist meðal annars af
kostnaði sem féll til við sölu á TM.
Gengið var endanlega frá sölu á tryggingafélaginu TM til Landsbankans. Stór hluti
söluandvirðis TM, sem nam rúmlega 32 milljörðum króna, var greiddur út til hluthafa með
arðgreiðslu og kaupum á eigin hlutabréfum. Verulegur hlutur situr hins vegar eftir sem eigið fé
í bankanum og mun leggja grunninn að vexti bankans á næstu árum.
Þá var lokið endanlega við kaup á hlut stjórnenda í Ortus Secured Finance og á bankinn nú allt
hlutafé í félaginu. Þessi kaup gera okkur kleift að samþætta bresku starfsemina okkar, lækka
kostnað, endurfjármagna óhagkvæmari erlendar skuldir og leggja grunninn að frekari vexti í
Bretlandi.
Einskiptisliðir vegna þessara viðskipta höfðu umtalsverð áhrif á rekstrartölur bankans á
ársfjórðungnum, en ef horft er framhjá þeim liðum, var afkoma af reglubundinni starfsemi
fyrir skatta prýðileg.
Mikil aukning var á hreinum vaxtatekjum á milli ára, eða sem nemur rúmlega 25%.
Aukninguna má rekja til stækkunar lánabókar, lækkunar fjármagnskostnaðar og tímabundið
hárrar lausafjárstöðu í kjölfar sölu á TM, sem lækkaði aftur í kjölfar arðgreiðslu í apríl. Sá
hluti söluverðsins, sem eftir situr í bankanum, mun hins vegar skila áfram ávöxtun og því má
ætla að vaxtatekjur verði áfram sterkar.
Þóknanatekjur og fjárfestingatekjur báru merki erfiðrar tíðar á verðbréfamörkuðum og þar
varð lítillegur samdráttur á milli ára. Þá hefur gengið ágætlega að halda aftur af
kostnaðaraukningu, ef horft er fram hjá einskiptisliðum, og fjöldi starfsfólks er óbreyttur frá
síðasta ársfjórðungi.
Kvika er nú í öfundsverðri stöðu til að sækja fram og vaxa, líkt og áætlanir bankans gera ráð
fyrir. Bankinn er með afar sterka eiginfjár- og lausafjárstöðu eftir söluna á TM og stöðugar
vaxtatekjur hafa komið í stað sveiflukenndari tekna af tryggingastarfsemi. Innviðir bankans,
sem hafa verið aðlagaðir að brottför TM úr samstæðunni, eru öflugir og skalanlegir, sem
leggur góðan grunn að framsókn okkar á Íslandi og í Bretlandi. “
Kynningarfundur og fjárfestakynning
Kynningarfundur fyrir hluthafa og markaðsaðila verður haldinn fimmtudaginn 8. maí kl. 08:30 í höfuðstöðvum bankans á 9. hæð í Katrínartúni.
Fundinum verður jafnframt streymt á íslensku.
Horfa á streymi
Hægt er að senda tölvupóst með spurningum fyrir fund eða á meðan honum stendur á fjarfestatengsl@kvika.is eða í gegnum Slido appið.
Fjárfestakynning