17. ágúst 2023

Afkoma fyrstu sex mánuði ársins 2023

Á stjórnarfundi þann 17. ágúst 2023 samþykktu stjórn og forstjóri árshlutauppgjör samstæðu Kviku banka hf. („Kvika“) fyrir tímabilið 1. janúar til 30.júní 2023.
                                                                                                            
Helstu atriði úr árshlutareikningi á fyrri árshelmingi 2023

  • Hagnaður fyrir skatta nam 2.684 milljónum króna
  • Arðsemi efnislegs eigin fjár fyrir skatta var 12,4%
  • Hagnaður á hlut nam 0,4 kr. á tímabilinu
  • Heildareignir námu 330 milljörðum króna
  • Eigið fé samstæðunnar var 81 milljarðar króna
  • Gjaldþolshlutfall fjármálasamsteypunnar var 1,24 og eiginfjárhlutfall samstæðunnar án tryggingastarfsemi (CAR) var 23,1%
  • Heildar lausafjárþekjuhlutfall (LCR) samstæðunnar var 390%
  • Heildareignir í stýringu námu 457 milljörðum króna

Afkoma ágæt en áhrifa af erfiðum aðstæðum á fjármálamörkuðum gætir enn

Hagnaður Kviku fyrir skatta á fyrstu sex mánuðum ársins 2023 nam 2.684 milljónum króna og arðsemi efnislegs eigin fjár (e. return on tangible equity) fyrir skatta var 12,4% á tímabilinu.

Hreinar vaxtatekjur námu 4.347 milljónum króna og jukust um 27% miðað við sama tímabil árið áður og má aukningu vaxtatekna helst skýra með útlánavexti og hækkandi vaxtastigi sem eykur vaxtatekjur af skuldabréfaeignum. Vaxtatekjur útlána jukust um 423 milljónir króna á fjórðungnum en þrátt fyrir það lækkar hreinn vaxtamunur lítilega á milli fjórðunga því sterk lausafjárstaða og mikil hækkun vaxta á tímabilinu hafði tímabundið neikvæð áhrif á vaxtamun annars ársfjórðungs. Hrein virðisrýrnun nam 29 milljónum króna á tímabilinu samanborið við 96 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2022. Hreinar fjárfestingartekjur námu 436 milljónum króna. Hreinar þóknanatekjur námu 3.085 milljónum króna. Rekstrarkostnaður nam 5.713 milljón króna á fyrstu sex mánuðum ársins.

Sterkur rekstur og iðgjaldaaukning í tryggingum

Tryggingarekstur TM gekk vel á tímabilinu og nam samsett hlutfall TM 97,5% á fyrri hluta ársins samanborið við 99,9% á sama tímabili árið á undan. Talsverð hækkun var á iðgjaldatekjum á tímabilinu sem jukust um 10,1% á sama tíma og tjónakostnaður hækkaði mun minna eða um 4,4%.

Sterkur efnahagur og há lausafjárstaða

Heildareignir jukust um 10% eða tæpa 31 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2023 og námu 330 milljörðum króna í lok júní. Útlán til viðskiptavina jukust um tæpa 12 milljarða króna á tímabilinu og námu 119 milljörðum króna í lok júní. Innstæður í bönkum og Seðlabanka ásamt ríkistryggðum verðbréfum námu 105 milljörðum króna en heildar lausafjáreignir voru 128 milljarðar króna og jukust um 11 milljarða króna á tímabilinu. Heildar lausafjárþekja (LCR) samstæðunnar án tryggingastarfsemi nam 390% í lok árshelmingsins sem var vel umfram 100% lágmarkskröfu eftirlitsaðila.

Eigið fé samstæðunnar var 81 milljarður króna í lok tímabilsins. Gjaldþolshlutfall fjármálasamsteypunnar var 1,24 í lok árshelmingsins og áhættuvegið eiginfjárhlutfall samstæðunnar (CAR) án áhrifa TM nam 23,1%, en eiginfjárkrafa ásamt eiginfjáraukum eftirlitsaðila er 18,7%.

Endurkaup hófust í júní 2023

Á tímabilinu 26. júní til 11. ágúst keypti bankinn 31.900.000 eigin hluti, sem samsvarar um það bil 0,7% af útgefnu hlutafé, fyrir um 550 milljónir. Kaup á eigin hlutum samkvæmt endurkaupaáætlun, sem samþykkt var af stjórn Kviku þann 23. júní 2023, munu að hámarki nema 1 milljarði króna.

Afkomuspá hækkar um 200 milljónir 

Afkomuspá Kviku er nú sett fram fyrir grunnrekstur samstæðunnar, sem skilgreind er sem afkoma án fjárfestingatekna, í stað heildarafkomu.

Afkomuspá, án fjárfestingatekna, gerir ráð fyrir 6,6 milljarða króna hagnaði fyrir skatta fyrir næstu tólf mánuði. Sambærileg spá sem birt var eftir fyrsta ársfjórðung hljóðaði upp á 6,4 milljarða króna, og er afkomuspáin því að hækka um 200 m.kr. Síðasta spá, með fjárfestingatekjum, hljóðaði upp á 9,4 milljarðar. Ef notuð væri sama framsetning og áður væri ný afkomuspá 9,6 milljarðar.

Afkoma Kviku verður fyrir áhrifum af afkomu fjárfestingareigna í gegnum hreinar fjárfestingartekjur, en samhliða breyttri framsetningu eru í fjárfestakynningu veittar auknar upplýsingar um samsetningu eigna félagsins til þess að auðvelda markaðsaðilum að meta líklegar fjárfestingartekjur.

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku:

Kvika skilar ágætri afkomu á öðrum ársfjórðungi og kjarnastarfsemi heldur áfram að styrkjast. Rekstur viðskiptabanka, fyrirtækja og markaða og trygginga gekk vel á tímabilinu en eignastýring og fjárfestingastarfsemi litaðist talsvert af erfiðum aðstæðum á verðbréfamörkuðum. Ég tel uppgjörið vera vel ásættanlegt og að félagið eigi mikið inni.

Á undanförnum árum hefur Kvika markvisst fjárfest í uppbyggingu félagsins með áherslu á fjártækni, nýsköpun í fjármálaþjónustu og öflugan mannauð. Stefna okkar er og hefur verið að umbreyta fjármálaþjónustu á Íslandi með gagnkvæman ávinning að leiðarljósi. Það er ánægjulegt að á undanförnum vikum hefur mikilvægum áföngum á þeirri vegferð okkar verið náð. 

Félagið tók stórt skref með útvíkkun þjónustu Aurs inn á einstaklingsmarkað með uppfærslu sem sett var í loftið á dögunum. Viðtökur viðskiptavina Aurs hafa verið langt umfram væntingar okkar en frá því að uppfært Aur app var sett í almenna dreifingu í lok júlí hafa verið gefin út yfir 9.000 ný greiðslukort og viðskiptavinir byrjaðir að notfæra sér nýja þjónustu. Með tilkomu nýrra lausna í Aur heldur Kvika áfram að auka samkeppni á íslenskum fjármálamarkaði. Á sama tíma hefur Straumur, greiðslumiðlunarfélag bankans, farið vel af stað en flutningar á söluaðilum frá Rapyd ganga vel og verður yfirfærslu á öllum söluaðilum lokið á seinni hluta ársins. 

Við höfum byggt góðan grunn að undanförnu og það eru því spennandi tímar framundan í fjártækni og nýsköpun í fjármálaþjónustu Kviku.“

 

Viðhengi

Til baka