11. nóvember 2021
Á stjórnarfundi þann 10. nóvember 2021 samþykktu stjórn og forstjóri árshlutauppgjör samstæðu Kviku banka hf. fyrir tímabilið 1. janúar 2021 til 30. september 2021.
Helstu atriði úr árshlutareikningi fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2021
Kynningarfundur fyrir hluthafa og markaðsaðila verður haldinn kl. 8:30 fimmtudaginn 11. nóvember. Fundurinn verður haldinn í höfuðstöðvum bankans, á 9. hæð í Katrínartúni 2, 105 Reykjavík. Fundinum verður jafnframt streymt á vefslóðinni https://www.kvika.is/fjarfestaupplysingar/fjarfestakynning-11-november-2021/
Mjög góð afkoma á öllum sviðum
Hagnaður samstæðu Kviku banka hf. fyrir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 nam 7.857 milljónum króna. Samruni Kviku banka hf., TM hf. og Lykils fjármögnunar hf. átti sér stað í lok mars og því er rekstur TM hf. og Lykils fjármögnunar hf. ekki hluti af rekstrarreikningi samstæðunnar fyrstu þrjá mánuðina. Hagnaður TM hf. og Lykils fjármögnunar hf. fyrir skatta á fyrsta ársfjórðungi nam 1.518 milljónum króna og því er samanlagður hagnaður Kviku banka hf., TM hf. og Lykils fjármögnunar hf. fyrir skatta 9.375 milljónir króna á fyrstu níu mánuðum ársins.
Arðsemi vegins efnislegs eigin fjár (e. return on weighted tangible equity) fyrir skatta var 36,4% á tímabilinu.
Hreinar vaxtatekjur Kviku banka hf. námu 2.928 milljónum króna og jukust um 121% miðað við sama tímabil árið áður og má aukningu vaxtatekna helst skýra með breyttri samsetningu útlánasafns og lausafjáreigna ásamt hagstæðri þróun fjármagnskostnaðar. Jákvæðar virðisbreytingar voru 160 milljónir króna á tímabilinu samanborið við virðisrýrnun upp á 228 milljónir á fyrstu níu mánuðum síðasta árs. Hreinar fjárfestingatekjur námu 4.110 milljónum króna þar sem góð ávöxtun var á flestum þeim eignamörkuðum sem bankinn starfar á. Þóknanatekjur héldu áfram að vaxa og námu hreinar þóknanatekjur 5.094 milljónum króna sem er 18% aukning frá fyrra ári.
Lágt samsett hlutfall TM og ávöxtun fjáreigna góð
Samsett hlutfall TM nam 83,3% á þriðja ársfjórðungi samanborið við 89,2% á sama tímabili árið á undan. Fjárfestingartekjur tryggingafélagsins námu 1.181 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi og ávöxtun eignasafnsins því 3,6% á tímabilinu.
Efnahagur stækkar vegna samruna
Heildareignir samstæðu Kviku banka hf. jukust um 90% eða um 111 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins og námu 234 milljörðum króna. Útlán til viðskiptavina jukust um 40 milljarða króna og er aukningin að mestu til komin vegna samrunans. Hlutfall útlána til einstaklinga jókst úr því að vera 19% af öllum útlánum í 42% í lok tímabilsins. Innstæður í bönkum og Seðlabanka ásamt ríkistryggðum verðbréfum námu 47 milljörðum króna og heildar lausafjáreignir voru 84 milljarðar króna og jukust um 7 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins. Heildar lausafjárþekja (LCR) samstæðunnar án tryggingastarfsemi nam 171% í lok september sem var vel umfram 100% lágmarkskröfu eftirlitsaðila.
Eigið fé samstæðunnar jókst við samruna Kviku banka hf., TM hf. og Lykils fjármögnunar hf. og var 76 milljarðar króna þann 30. september 2021 samanborið við 19 milljarða króna í lok 2020. Gjaldþolshlutfall fjármálasamsteypunnar (Kvika banki hf. og dótturfélög, þ.á.m. TM tryggingar hf.) var 1,51 í lok tímabilsins og áhættuvegið eiginfjárhlutfall samstæðunnar (CAR) án áhrifa TM trygginga hf. nam 30,8%, en eiginfjárkrafa ásamt eiginfjáraukum eftirlitsaðila er 20,6%.
Endurkaupum lokið
Á tímabilinu júlí til október keypti bankinn 117.256.300 eigin hluti, sem samsvarar um það bil 2,5% af útgefnu hlutafé, fyrir um 2,9 milljarða króna. Kaupum samkvæmt endurkaupaáætlun er nú lokið.
Uppfærð afkomuspá fyrir árið 2021
Afkomuspá Kviku banka hf. fyrir árið 2021 var áður 8,6 – 9,6 milljarðar króna en hefur nú verið hækkuð. Uppfærð afkomuspá gerir ráð fyrir að hagnaður fyrir skatta verði á bilinu 9,8 – 10,3 milljarðar króna (11,3 – 11,8 milljarðar króna að meðtöldum hagnaði TM hf. og Lykils fjármögnunar hf. á fyrsta ársfjórðungi). Uppfærð afkomuspá gerir ráð fyrir að gjaldfærður verði einskiptiskostnaður á fjórða ársfjórðungi að fjárhæð 400 milljóna króna vegna flutninga samstæðunnar á einn stað í Katrínartúni 2.
Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka hf.:
„Rekstur Kviku gengur vel og samhliða birtingu uppgjörsins er afkomuspá ársins hækkuð.
Nýlega gerði bankinn viljayfirlýsinu um kaup á meirihluta hlutafjár Ortus Secured Finance. Bankinn keypti 15% hlut í Ortus 2018 og þekkir félagið því vel. Ortus er lánafyrirtæki sem lánar gegn veðum í fasteignum. Markmið með kaupunum er að bæta arðsemi Kviku töluvert ásamt því að auka áhættudreifingu í rekstri og efnahag. Á undanförnum árum hefur Kvika sameinast fjölda smærri fjármálafyrirtækja með árangursríkum hætti. Ég tel þetta geta orðið ein af áhugaverðustu og farsælustu kaupunum.
Kvika er fjárhagslega sterkt með dreifðar tekjustoðir. Þrátt fyrir stærð félagsins eru vaxtatækifæri enn mikil, sem dæmi er markaðshlutdeild í bankaviðskiptum einstaklinga lítil.
Á undanförnum áratug hefur fækkun starfsmanna einkennt mörg fjármálafyrirtæki. Við höfum hins vegar verið að fjölga starfsmönnum, meðal annars til þess að undirbúa útvíkkun á starfsemi félagsins. Það er mikilvægt að ungt og hæfileikaríkt fái störf við hæfi og áhugavert að sjá yngri og eldri starfsmenn vinna saman með þá sýn að hægt sé að umbylta fjármálaþjónustu á Íslandi. Í lok mánaðar munum við kynna metnaðarfull markmið sem eiga að leiða til aukinnar samkeppni á næstu árum.“