Forsíða /
Kvika verðbréf /
Skilmálar og persónuverndarstefna /
Skilmálar: Kvika verðbréf

Skilmálar: Kvika verðbréf

 1. Kvika verðbréf er smáforrit Kviku banka hf., kt. (540502-2930), Katrínartúni 2, 105 Reykjavík, (hér eftir „Kvika“ eða „Bankinn“) sem gerir viðskiptavinum kleift að hafa yfirsýn yfir verðbréfaeign sína hjá Kviku og er ætlað til þess að þjónusta viðskiptavini betur (hér eftir nefnt „appið“). Um appið gilda notkunarskilmálar þessir, sem viðskiptavinur samþykkir með innskráningu og notkun á appinu, ásamt því að samþykkja vinnslu persónuupplýsinga. Appið er viðskiptavinum að kostnaðarlausu, en um þjónustu þá sem Kvika býður upp á gilda að öðru leyti almennir viðskiptaskilmálar Kviku banka hf. og teljast vera partur af skilmálum þessum.  Viðskiptavinur undirgengst þá samhliða innskráningu og notkun á appinu. Almenna viðskiptaskilmála má nálgast á vef Kviku, www.kvika.is.
 2. Viðskiptavinur þarf að vera með rafræn skilríki til að geta skráð sig inn í appið. Viðskiptavinur ber fulla og ótakmarkaða ábyrgð á öllum aðgerðum í appinu sem framkvæmdar eru eftir að appið hefur verið virkjað, þ.á.m. eru allar fjárhagslegar færslur alfarið á ábyrgð viðskiptavinar.
 3. Til að vernda þau gögn sem eru aðgengileg um viðskiptavin í appinu þarf viðskiptavinur að skrá sig inn í appið með rafrænum skilríkjum, fingrafarsauðkenni eða andlitsauðkenni (Face Id) til að koma í veg fyrir að annar en viðskiptavinur noti appið. Kvika mælir einnig með því að viðskiptavinur auki við öryggi gagna í snjalltækinu sínu með því að virkja læsingu á sjálfum símanum. 
 4. Aðeins er heimilt að setja appið upp á símtæki sem er í eigu eða í umsjá viðskiptavinar. Ef viðskiptavinur lánar, selur eða heimilar öðrum umráð yfir símtæki sem sótt hefur appið skuldbindur viðskiptavinur sig til þess að útskrá sig úr appinu áður en símtækið er afhent öðrum. 
 5. Þeir skilmálar sem varða þá þjónustu og viðskipti sem viðskiptavinur á við Kviku gilda einnig um notkun þjónustunnar eða viðskipti hans við Kviku í gegnum appið. 
 6. Kvika mun senda viðskiptavini skilaboð/tilkynningar (e. notifications) í appið sem varða notkun hans á þeirri þjónustu sem er í boði hverju sinni. Tilkynningarnar eru sjálfvaldar í upphafi en viðskiptamaður getur ávallt farið í stillingar og breytt eða afskráð sig úr þjónustunni. Kvika kann að fjarlægja, breyta eða bæta við tilkynningum án samþykkis frá viðskiptavini. Þá ber Kvika enga ábyrgð á því ef tilkynningar berast viðskiptavini ekki eða of seint. 
 7. Kvika áskilur sér allan rétt til að ákvarða einhliða þá þjónustu sem er í boði í appinu á hverjum tíma og rjúfa aðgang að upplýsingum um stundarsakir fyrirvaralaust og án tilkynningar ef þörf krefur, svo sem vegna uppfærslu skráa, breytinga kerfis og þess háttar. 
 8. Það er mikilvægt að viðskiptavinur kynni sér áhrif þeirra aðgerða sem hann ætlar að framkvæma í appinu ef hann þekkir ekki til þeirra eða er óviss um hvað felst í þeim. Bankinn verður ekki gerður ábyrgur fyrir eftirfarandi: a) tjóni sem hlotist getur af vanþekkingu, misskilningi eða misnotkun viðskiptavinar eða annars aðila með eða án hans umboðs á notkunarreglum appsins, b) tjóni sem hlotist getur af vél- og hugbúnaði eða þjónustu appsins, c) tjóni sem hlotist getur af röngum færslum, d) tjóni sem hlotist getur af vanþekkingu, misskilningi, misnotkun eða röngum færslum viðskiptavinar eða annars aðila þegar um er að ræða aðgerðir samkvæmt umboði frá öðrum aðila, e) tjóni sem hlotist getur af galla eða bilun í vél- eða hugbúnaði til móttöku á þjónustu appsins, f) tjóni sem hlotist getur vegna upplýsinga eða aðgerða þriðja aðila, s.s. Reiknistofu Bankanna. 
 9. Kvika ber ekki ábyrgð á tjóni sem stafar af óviðráðanlegum orsökum (force majeure), s.s. stríði eða yfirvofandi stríðsátökum, hryðjuverkum, náttúruhamförum, verkfalli, verkbanni eða viðskiptabanni. Jafnframt ber Kvika ekki ábyrgð á tjóni sem stafar af atburðum sem eru stjórnmálalegs, félagslegs, fjármálalegs eða efnahagslegs eðlis og eru líkleg til að koma í veg fyrir, rjúfa eða trufla að hluta eða öllu leyti þá þjónustu sem Kvika veitir, jafnvel þó að slík atvik flokkist ekki undir óviðráðanleg atvik. Þá ber Kvika ekki ábyrgð á tjóni sem kann að hljótast af vegna lagaskyldna sem Kviku ber að fylgja. 
 10. Viðskiptavinur skuldbindur sig til þess að allir þeir fjármunir sem fara í gegnum appið eru fjármunir í hans eigu eða umboðsgjafa. Viðskiptavinur skuldbindur sig til þess að tilkynna Kviku skriflega ef einhverjir þeir fjármunir sem hann hefur eða kemur til með að afhenda Kviku eru ekki í hans eigu eða umboðsgjafa. Skylda þessi er tilkomin vegna ákvæða laga og reglna og um aðgerðir gegn peningaþvætti. Ef viðskiptavinur verður uppvís að misnotkun eða tilraun til misnotkunar á upplýsingum sem fengnar voru í appinu eða á kerfinu sjálfu eða brýtur ákvæði skilmála þessa að öðru leyti er Kviku heimilt einhliða og fyrirvaralaust að rjúfa aðgang hans að appinu. Reynist viðskiptavinur ekki hafa brotið gegn þessum reglum verður opnað aftur fyrir aðganginn. 
 11. Til þess að hægt sé að veita viðskiptavini þá þjónustu sem er í boði í appinu er Kviku nauðsynlegt að vinna með ýmiss konar persónuupplýsingar um hann í appinu. Kvika vinnur persónuupplýsingar í samræmi við lög og um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. 
 12. Vinnsla persónuupplýsinga: Við framkvæmd og í tengslum við þjónustuna er nauðsynlegt að vinna ýmsar persónuupplýsingar um viðskiptavini t.a.m. samskiptaupplýsingar, auðkenni, fjárhagsupplýsingar og opinberar upplýsingar. Með því að sækja appið vistast einnig ýmsar tæknilegar upplýsingar um snjalltæki viðskiptavinar, þ.e. nafn, tegund og númer, stillingar snjalltækis m.t.t. tímasvæðis, tungumáls og IP-tölu í gagnagrunn Kviku. Þessar upplýsingar verða nýttar í þágu notkunar þinnar á appinu og verða tengdar við netbanka notanda.
 13. Tilgangur vinnslu: Vinnsla persónuupplýsinga byggir á samningi, lögmætum hagsmunum samþykki og/eða lagaskyldu. Þannig geta upplýsingarnar t.d. verið notaðar í eftirfarandi tilgangi: Til að auðkenna viðskiptavin; Til að veita og framkvæma þá þjónustu sem appið býður upp á og framfylgja skilmálum sem samþykktir hafa verið; Til að senda viðskiptavini tilkynningar og upplýsingar um notkun á þjónustunni; Til þess að þróa appið og þá þjónustu sem því er ætlað að veita t.d. með því að mæla umferð, breyta efnistökum í appi og aðlaga þjónustuna; Til að koma í veg fyrir sviksamlegt athæfi og ólöglegar aðgerðir; Til að framfylgja skyldum okkar að lögum t.d. með því að veita eftirlitsaðilum upplýsingar; Til að senda tilkynningar um nýjungar í þjónustu og tilboð og til beinnar markaðssetningar svo hægt sé að kynna viðskiptavini þær sérsniðnu vörur og þjónustu sem bankinn hefur að bjóða (markaðslegur tilgangur). 
 14. Viðskiptavinur getur ávallt óskað eftir því að upplýsingar séu ekki nýttar í markaðslegum tilgangi með því að afskrá sig af póstlista með því að velja hlekk í markaðspósti eða með því að senda tölvupóst á personuvernd@kvika.is. Einnig er hægt að loka fyrir tilkynningar (e. Push notification) í stillingum appsins en sú aðgerð gildir eingöngu um þær tilkynningar. 
 15. Miðlun persónuupplýsinga: Upplýsingunum kann að vera deilt með þriðja aðila t.d. til eftirlitsaðila eða til þjónustuaðila en fyllsta öryggis og trúnaðar er gætt við slíka miðlun. Einnig er áskilinn réttur til að koma ábendingum á framfæri við lögreglu um athæfi sem talið er ólögmætt. Þá kann upplýsingum að vera deilt með félögum innan samstæðu Kviku. 
 16. Öryggi: Upplýsingar eru ekki vistaðar í appinu heldur eingöngu í grunnkerfum Kviku og þjónustuaðila. Öll samskipti appsins við grunnkerfi eru dulkóðuð. Nánari upplýsingar um vinnslu persónuupplýsinga um viðskiptavini er að finna í persónuverndarstefnu Kviku. 
   
 17. Notkun appsins er óheimil ef átt hefur verið við stýrikerfi viðkomandi símtækis eða öryggi þess er ógnað af öðrum ástæðum, svo sem vegna uppsetningar á vafasömu forriti. 
 18. Ef viðskiptavinur brýtur gegn skilmálum þessum eða öðrum skilmálum sem hann hefur samþykkt gagnvart Kviku er Kviku heimilt að loka fyrir aðgang viðskiptavinar að appinu. Hið sama á við ef viðskiptavinur verður uppvís að misnotkun eða tilraun til misnotkunar á upplýsingum sem aðgengilegar eru í appinu eða á appinu sjálfu. 
 19. Kviku er heimilt að breyta skilmálum þessum einhliða hvenær sem er og taka slíkar breytingar gildi án fyrirvara ef þær eru til hagsbóta fyrir viðskiptavin. Séu breytingarnar ekki til hagsbóta fyrir viðskiptavin verður honum tilkynnt um þær með tveggja mánaða fyrirvara, svo sem með skilaboðum á heimasíðu Kviku eða appinu. Geri viðskiptavinur ekki athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar fyrir gildistöku breytinganna telst hann hafa samþykkt þær. 
 20. Kviku er heimilt að segja upp samningi um notkun appsins með að minnsta kosti tveggja mánaða fyrirvara. Viðskiptavinum er heimilt að segja upp samningi um notkun appsins hvenær sem er að kostnaðarlausu.
 21. Allar tilkynningar til Kviku skal senda á netfangið thjonusta@kvika.is eða hringja í síma 540 3200.
 22. Hvenær sem er, á meðan samningssambandi stendur, á viðskiptamaður rétt á að fá skilmála þessa afhenta á pappírsformi, óski hann þess. 
 23. Rísi mál út af samningi þessum skal reka það fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. 
 24. Með því að skrá sig inn í appið staðfestir viðskiptavinur að hann hafi kynnt sér þær reglur sem gilda um notkun appsins og staðfestir að hann muni fylgja þeim í hvívetna. 
 25. Starfsemi Kviku lýtur eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og er Kvika skráð í hlutafélagaskrá, fyrirtækjaskrá, firmaskrá og skrá Fjármálaeftirlitsins. Um hluta af þeirri þjónustu sem Kvika veitir aðgang að í appinu gilda lög nr. 114/2021 um greiðsluþjónustu og þá gilda lög nr. 33/2005 um fjarsölu á fjármálaþjónustu um þá fjarsölusamninga sem gerðir eru milli viðskiptavinar og Kviku í appinu. 

Skilmálar þessir gilda frá 30.11.2022.