Til baka

Sjálfbærniskýrsla 2023

Árið í hnotskurn

Árið í hnotskurn

Um skýrsluna

Sjálfbærniskýrsla Kviku er gefin út samhliða ársreikningi Kviku og dótturfélaga. Í skýrslunni eru gerð skil á árangri félagsins í málefnum sem snerta sjálfbærni, það er umhverfis- og félagsmál sem og stjórnarhætti (hér eftir „UFS“). 


Við gerð skýrslunnar var UFS-leiðbeiningum Nasdaq (ESG Reporting Guide 2.0) fylgt. Staðlar Global Reporting Initiative (GRI) eru einnig hafðir til hliðsjónar og viðeigandi vísum svarað. Í lok skýrslunnar má finna tilvísunartöflu með yfirliti yfir þá UFS-vísa sem svarað er en viðeigandi upplýsingar eru annaðhvort birtar beint í töflunni eða í texta skýrslunnar eftir því sem við á.

Innihald skýrslunnar varðar samstæðu Kviku (hér eftir „Kvika“). Skýrslan tekur til íslenskrar starfsemi Kviku, það er Kviku banka hf. (hér eftir „Kvika banki“ eða „bankinn“) sem er móðurfélag samstæðunnar og dótturfélaganna TM trygginga hf. (hér eftir „TM“), Kviku eignastýringar hf. (hér eftir „Kvika eignastýring“), Straums greiðslumiðlunar hf. (hér eftir„Straumur“) og Skilum ehf. (hér eftir „Skilum“). Vörumerki Kviku banka eru Auður dóttir Kviku (hér eftir „Auður“), Framtíðin, Netgíró, Aur app (hér eftir„Aur“) og Lykill fjármögnun (hér eftir „Lykill“).


Starfsemi Kviku í gegnum breska dótturfélagið Kvika Securities Ltd. (hér eftir „Kvika Securities“) og Ortus Secured Finance Limited (hér eftir„Ortus“) sem er dótturfélag Kviku Securities er almennt undanskilin umfjöllun skýrslunnar en upplýsingar um fjölda starfsfólks innihalda þó breska starfsemi Kviku. Stefnur Kviku Securities hafa að einhverju leyti verið samræmdar stefnum Kviku í málum sem snerta sjálfbærni en tölulegar upplýsingar, einkum fyrir umhverfisþætti, hafa enn sem komið er ekki verið samræmdar við aðra hluta samstæðunnar.

Ávarp forstjóra

Árið 2023 var viðburðaríkt ár hjá okkur í Kviku og erum við stolt af þeim árangri sem við höfum náð í rekstri félagsins við annars krefjandi aðstæður á mörgum sviðum. Á árinu var unnið ötullega að áframhaldandi innleiðingu á sjálfbærnistefnunni sem var samþykkt á árinu 2022 og mótuð með þátttöku alls starfsfólks Kviku þvert á svið og dótturfélög. Markmið okkar er sem fyrr að sjálfbærni sé hluti af okkar kjarnastarfsemi og ákvarðanatöku.


Til lengri tíma geta fjármálafyrirtæki ekki verið rekin nema á sjálfbæran hátt. Það má því segja að fjármálastarfsemi og sjálfbærni séu í raun tvær hliðar á sama peningnum. Gott dæmi um það er sá árangur sem við náðum á árinu í að halda áfram að styrkja fjármögnun bankans undir grænni fjármálaumgjörð Kviku. Um miðjan nóvember lukum við sölu á skuldabréfum í sænskum krónum á hagstæðari kjörum en áður. Erum við stolt af því að skuldabréfin eru fyrsta græna útgáfa íslensks banka í sænskum krónum.


Fjölmörg spennandi verkefni eru nú í gangi með það að markmiði að auka sjálfbærni í starfsemi Kviku enn frekar eins og lesa má um í þessari skýrslu. Á mörgum sviðum hefur verið lögð vinna í vöruþróun sem tengist loftslagsmálum en kapphlaup er hafið til að ná settum markmiðum Parísarsáttmálans um samdrátt í losun og ljóst að þau nást ekki nema stofnana- og einkafjárfestar leggi sitt af mörkum og vinni saman.


Mikilvægt er að fyrirtæki komi að grænum lausnum með fjármögnun eða fjárfestingu sem styður við vegferð Íslands að kolefnishlutleysi og að verkefnin sem ráðist verður í verði jafnframt rekin á arðbæran og sjálfbæran hátt. Þar munu fjármálafyrirtæki eins og Kvika gegna lykilhlutverki.


Með úttekt óháðs ytri aðila höfum við fengið staðfestingu á að á árinu 2023 var bæting frá fyrra ári varðandi sjálfbærni í starfseminni. Í því felst viðurkenning til starfsfólks okkar á þeirri umbótavinnu sem hefur átt sér stað hjá Kviku og áherslu á sjálfbærni í rekstri bankans. Þetta er hvatning sem mun endurspeglast í áframhaldandi metnaði okkar til að ná lengra. Vinnunni er ekki lokið, við erum á ákveðinni vegferð og viljum ná enn meiri árangri á næstu árum sem á að skila sér í auknu virði til hluthafa, starfsfólks, samfélagsins og allra annarra hagaðila í samræmi við eitt af leiðarljósum Kviku um að vera ábyrgur þátttakandi í samfélaginu.


Reykjavík, 15. febrúar 2024

Sótt fram af ábyrgð

Stefna og áherslur

Frá stofnun Kviku hefur það verið markmið okkar að auka samkeppni, einfalda fjármál viðskiptavina og umbreyta þannig fjármálaþjónustu á Íslandi. Þessu viljum við ná fram með gagnkvæmum ávinningi sem skilar sér til hagaðila bankans, svo sem viðskiptavina, hluthafa, starfsfólks og samfélagsins.  


Eitt af leiðarljósum Kviku er að vera ábyrgur þátttakandi í samfélaginu, hugsa til framtíðar og stuðla að sjálfbæru samfélagi með virkri þátttöku. Stefnu Kviku má sjá hér að neðan. 

Skipulag starfsemi og þjónustu

Kvika banki er móðurfélag samstæðu Kviku sem samanstendur af fimm tekjueiningum. Tvær þeirra eru reknar undir nafni Kviku banka: viðskiptabankasvið og sviðið fyrirtæki og markaðir. Þrjú dótturfélög eru rekin undir eigin vörumerki en það eru TM, Kvika eignastýring og Kvika Securities. Stjórn bankans samþykkti breytingar á stjórnskipulagi í lok árs 2022 og fólst í því tilfærsla á verkefnum og ný svið tóku til starfa. Hinu nýja skipulagi er ætlað að styðja enn frekar við framgöngu bankans sem leiðandi afls á fjármálamarkaði með því að auka samkeppni og nýsköpun. Skipulagsbreytingarnar gengu í gegn á fyrri hluta árs 2023. 

Skipulag tekjusviða

Viðskiptabanki

Viðskiptabankasvið Kviku veitir fyrirtækjum og stofnunum sérsniðna fjármálaþjónustu auk þess að bjóða einstaklingum fjölbreyttar fjármálalausnir í gegnum sérhæfð vörumerki og dótturfélög. Vörumerkin eru Auður sem býður upp á stafræna sparnaðarreikninga, Aur sem veitir fjármálaþjónustu á netinu, Lykill sem býður upp á eignaleigustarfsemi, Netgíró sem veitir greiðsluþjónustu, Framtíðin sem veitir viðbótarhúsnæðislán og brúarlán. Dótturfélögin eru Skilum sem er innheimtuþjónusta og Straumur sem er nýtt dótturfélag Kviku á sviði greiðslumiðlunar og tók til starfa á árinu.

Fyrirtæki og markaðir 

Fyrirtæki og markaðir veita faglega og fjölbreytta þjónustu á sviði lánveitinga, verðbréfa- og gjaldeyrisviðskipta og fyrirtækjaráðgjafar.  

Tryggingar  

TM er leiðandi í stafrænum lausnum trygginga og leggur áherslu á að einfalda tryggingamál einstaklinga og fyrirtækja. Í október 2023 var tekin sú stefnumótandi ákvörðun af stjórn bankans að hefja undirbúning að sölu eða skráningu TM. Um miðbik nóvember var upplýst um að söluferlið væri hafið og yrði með þeim hætti að Kvika hygðist selja allt útistandandi hlutafé í TM eða selja hlut í félaginu til kjölfestufjárfesta sem kann að leiða til skráningar. Söluferlið stendur nú yfir.     

Eignastýring

Kvika eignastýring veitir fjölbreytta eignastýringar- og fjárfestingarþjónustu með áherslu á árangur og langtímahagsmuni viðskiptavina. Meðal þjónustu sem félagið býður upp á má nefna einkabankaþjónustu, sjóðastýringu, framtakssjóði og eignastýringu fyrir stofnanafjárfesta. 

Bretland

Kvika Securities stundar fjölbreytta fjárfestingarbanka- og eignastýringarstarfsemi í Bretlandi fyrir íslenska jafnt sem erlenda viðskiptavini, ásamt lánastarfsemi í gegnum breska félagið Ortus. 

Skipurit samstæðu Kviku

Nánari umfjöllun um stjórnendur Kviku má finna á vef félagsins.

Sjálfbærni í rekstri

Til að uppfylla sem best hlutverk sitt, ná fram settum markmiðum og starfa eftir leiðarljósi okkar um að vera ábyrgur þátttakandi í samfélaginu hefur Kvika sett sér sérstaka sjálfbærnistefnu. Með slíkri stefnumörkun felast tækifæri til nýsköpunar og verðmætamyndunar. Þannig eru viðmið um sjálfbærni höfð til hliðsjónar við þróun og framboð á vörum og þjónustu. Á árinu var ráðist í ýmsar breytingar í starfseminni og verklagi breytt til að auka skilvirkni um leið og dregið var úr kostnaði þar sem því var við komið. Einnig voru gerðar breytingar í stjórnendateymi samstæðunnar auk breytinga á fyrirkomulagi og verklagi nefndarstarfs með það að markmiði að bæta ákvarðanatöku. Ábyrg starfsemi skilar ávinningi til fyrirtækisins og allra hagaðila en arðbær og ábyrgur rekstur er leiðarstef í starfsemi Kviku. 

Ný lög um upplýsingagjöf um sjálfbærni

Fjármál gegna lykilhlutverki við að ná fram stefnumarkmiðum Evrópusambandsins (ESB) um Græna sáttmálann (e. EU Green deal) sem felur í sér að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 55% fyrir árið 2030 og ná fram kolefnishlutleysi fyrir árið 2050 sem og alþjóðlegum skuldbindingum um loftslags- og sjálfbærnimarkmið. Hröð þróun hefur átt sér stað í regluverki ESB og horft til nauðsynlegra umskipta þar sem markmiðið er að beina einkafjárfestingum og opinberu fé í loftslagshlutlaust og umhverfislega sjálfbært hagkerfi. Í því skyni hefur verið þróuð yfirgripsmikil stefnuskrá á vegum ESB og áætlun um sjálfbæra fjármögnun sem miðar að því að styðja við þær breytingar sem þörf er á.  


Á árinu 2023 tóku gildi á Íslandi lög um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar. Lögin veittu lagagildi hérlendis reglugerð ESB um upplýsingagjöf tengda sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu (e. sustainable finance disclosure regulation eða SFDR) og reglugerð um að koma á ramma til að greiða fyrir sjálfbærri fjárfestingu (e. EU Taxonomy eða Flokkunarreglugerðin). SFDR-reglugerðin mælir fyrir um samræmdar reglur fyrir aðila á fjármálamarkaði og fjármálaráðgjafa um þær upplýsingar sem þeim ber að birta fjárfestum með viðeigandi hætti um sjálfbærnitengd áhrif fjármálaafurða. Flokkunarreglugerðin kveður á um samræmdan ramma sem stuðlar að sjálfbærum fjárfestingum. Með reglugerðinni er komið á fót flokkunarkerfi með skilgreiningum á því hvað teljist vera sjálfbær atvinnustarfsemi. Kerfinu er ætlað að auka gagnsæi með samræmdum viðmiðum svo upplýsingagjöf markaðsaðila og stórra fyrirtækja geti hjálpað fjárfestum og fyrirtækjum að átta sig á því hversu sjálfbær tiltekin atvinnustarfsemi er. Auk þess að gera fjárfestum kleift að taka upplýstar fjárfestingarákvarðanir með sjálfbærni að leiðarljósi er markmiðið með kerfinu að skapa hvata fyrir fyrirtæki að innleiða græna umbreytingu í starfseminni og vinna gegn grænþvotti. Kvika hefur unnið að innleiðingu Flokkunarreglugerðarinnar og mun miðla upplýsingum til samræmis við hana fyrir fjárhagsárið 2023. 


Á vettvangi ESB hefur einnig verið samþykkt löggjöf varðandi miðlun upplýsinga um málefni sem tengjast sjálfbærni og á það við um umhverfismál, félagsmál og stjórnarhætti, eða sjálfbærniupplýsingagjöf fyrirtækja (e. corporate sustainability reporting directive eða CSRD). Markmið CSRD, meðal annars á grundvelli Flokkunarreglugerðarinnar, er að skapa ramma um kröfur á fyrirtæki varðandi innihald, framsetningu og samræmi sjálfbærniupplýsinga. Með þessum hætti er verið að skerpa á gagnsæi sjálfbærniupplýsinga og stuðla að öryggi fjárfesta við mat á fjárfestingarkostum.

CSRD tekur gildi í ESB í byrjun árs 2024 og mun í framhaldinu verða innleidd í íslenska löggjöf í samræmi við kröfur. Sjálfbærniáherslur félagsins hafa verið innleiddar í áföngum á síðustu árum samhliða vaxandi mikilvægi málaflokksins fyrir félagið, viðskiptavini og aðra hagaðila Kviku.

Sjálfbærnistefna Kviku

pdfSjálfbærnistefna Kviku var samþykkt á árinu 2022 og leggur hún grunninn að vinnu innan samstæðunnar í UFS-tengdum málefnum. Stefnan inniheldur fjögur megináherslusvið en þau eru: sjálfbært viðskipta-umhverfi, vöruþróun og nýsköpun, innri og ytri samskipti og starfsfólk og samfélagið. Samhliða vinnunni við gerð sjálfbærnistefnunnar, fór fram mikilvægisgreining á helstu áherslum í sjálfbærni í rekstri Kviku sem leiddi af sér eftirfarandi lykiláherslur sem enn er unnið eftir:

Stjórnarhættir

  • Góðir stjórnarhættir og samkeppnishegðun
  • Varnir gegn peningaþvætti, spillingu og mútum
  • Upplýsingaöryggi og persónuvernd
  • Þróun stafrænnar þjónustu

Félagslegir þættir

  • Jafnrétti og velferð starfsfólks
  • Þjálfun og menntun starfsfólks

Umhverfisþættir

  • Loftslagsmál í vöruþróun og nýsköpun
  • Loftslagsmál í virðiskeðju

Mikilvægisgreiningin er nauðsynlegur grunnur innleiðingar á sjálfbærnistefnunni og verkefnum innan samstæðunnar. Umfjöllun um mikilvægisgreiningar hefur fengið aukið vægi í kjölfar innleiðingar CSRD þar sem krafa er gerð um framkvæmd tvöfaldrar mikilvægisgreiningar (e. double materiality assessment). Slík mikilvægisgreining felur í sér greiningu á hvaða áherslur í sjálfbærni skipta félagið, og hagaðila þess, mestu máli með tvennslags hætti. Annars vegar eru það áhrif félagsins á umhverfi og samfélag og hins vegar á áhrif umhverfis og samfélags á fjárhagslega mikilvægi þætti hjá félaginu. Í starfsemi Kviku verður unnið að innleiðingunni á CSRD til samræmis við íslenska löggjöf og mikilvægisgreiningin uppfærð á grundvelli þeirra breytinga. 


Breytingar voru gerðar á stjórnskipulagi sjálfbærnimála á árinu 2023. Innan Kviku starfar sérstök sjálfbærninefnd sem er nú skipuð forstjóra og framkvæmdastjórum dótturfélaga og ákveðinna sviða ásamt forstöðumanni sjálfbærni. Breytingar á samsetningu nefndarinnar á árinu voru til þess fallnar að auka ákvörðunartökuvald hennar. Þá var málaflokkur sjálfbærni færður af skrifstofu forstjóra yfir á svið rekstrar og þróunar sem vinnur þvert á alla samstæðuna. Regluleg upplýsingagjöf er einnig til stjórnar bankans og undirnefnda en sjálfbærni, ófjárhagsleg upplýsingagjöf og loftslagsáhætta er fastur liður á dagskrá stjórnar.  


Fræðsla og aukin þekking starfsfólks hefur veigamiklu hlutverki að gegna við innleiðingu sjálfbærni-stefnunnar til að skapa skilning á innihaldi hennar og rækta menningu þar að lútandi. Vægi sjálfbærni hefur aukist í ákvörðunartöku og viðskiptaþróun í takt við auknar áskoranir á sviði umhverfis- og samfélagsmála og áhuga viðskiptavina á málefnum sjálfbærni. Nýsköpun í þróun vara og þjónustu er okkur því mikilvæg og getur dregið úr áhrifum loftslagsbreytinga.

Nýr sjálfbærniáhætturammi

Á árinu 2023 var pdfsjálfbærniáhætturammi Kviku (hér eftir „ramminn“) skilgreindur. Ramminn leggur grunn að stýringu sjálfbærniáhættu innan sviða Kviku sem og hjá dótturfélögum en hann tekur mið af sjálfbærnistefnu Kviku, nýjum reglugerðum og annarri þróun í sjálfbærnimálum á Íslandi og erlendis.  

  
Sjálfbærniáhætta hefur verið skilgreind sem sérstakur áhættuþáttur í starfseminni og getur verið áhættudrifkraftur fyrir aðrar tegundir áhættu, svo sem útlána-, markaðs-, rekstrar- og lausafjáráhættu. Lögð er áhersla á að draga úr sjálfbærniáhættu, það er þeirri áhættu að atburðir eða ástand á sviði umhverfismála, félagsmála eða stjórnarhátta gæti haft verulega neikvæð fjárhagsleg eða ófjárhagsleg áhrif á rekstur samstæðunnar, þar með talið á virði fjárfestinga, lána og trygginga sem og á viðskiptavini Kviku. Við þróun nýrra vara og þjónustu innan samstæðunnar er pdfstefnu um ábyrgt vöru- og þjónustuframboð fylgt og leitast við að meta sjálfbærniáhættu en til þess hefur verið þróað líkan sem mun koma til með að auðvelda aðgengi að upplýsingum við að meta sjálfbærniáhættu fjárfestinga og lánveitinga. 


Í rammanum er sérstaklega horft til loftslagsáhættu og er þar tekið mið af viðmiðum TCFD (Task Force on Climate-Related Financial Disclosures). Loftslagsáhættu er almennt skipt í tvo meginflokka en þeir eru annars vegar raunlæg áhætta (e. physical risk) sem stafar beint af loftslagsbreytingum og umbreytingaráhætta (e. transition risk) sem kemur til vegna aðgerða til að stemma stigu við loftslagsbreytingum. Raunlæg áhætta getur falið í sér fjárhagslegt tjón fyrir Kviku, svo sem í kjölfar veðurtengdra atburða, sem hafa áhrif á fjárfestingar eða virðiskeðju Kviku. Umbreytingaráhætta getur til dæmis snert áhrif hækkandi orkuverðs eða nýrra reglugerða sem tengjast vörnum gegn loftslagsbreytingum á fjárfestingar bankans. 


Sértækar stefnur hafa verið þróaðar innan Kviku eignastýringar og TM, sem snerta á innleiðingu sjálfbærniáhættu í fjárfestingarákvarðanir og -ráðgjöf ásamt innleiðingu loftslagsáhættu í tryggingastarfsemi. Nánari upplýsingar um þær stefnur má finna í köflunum um Kviku eignastýringu og TM. 

Sterkir innviðir og verðmætasköpun

Kvika eignastýring

Stöðugt er unnið að því að samþætta sjálfbærni betur inn í starfsemina og var það meðal annars haft að leiðarljósi þegar farið var í stefnumótunarvinnu félagsins á árinu 2023. Þar voru áherslur í sjálfbærni mótaðar út frá sjálfbærnistefnu Kviku sem hluti af heildarstefnu félagsins. Innan Kviku eignastýringar hefur verið starfræktur UFS-vinnuhópur sem skilar sér í auknum umræðum og sameiningu verkefna á sviði sjálfbærnimála þvert á starfseiningar. Á árinu átti sér einnig stað undirbúningur á þróun nýrra UFS-miðaðra sjóða til þess að mæta aukinni eftirspurn viðskiptavina eftir fjárfestingarkostum með UFS-áherslum. Þá var umfangsmikil vinna við innleiðingu á SFDR og Flokkunarreglugerðinni. 


Fræðsla starfsfólks er mikilvægur þáttur í skilvirkri innleiðingu UFS-þátta í fjárfestingarákvarðanir og haldin voru fræðsluerindi fyrir starfsfólk um lagaumgjörð ESB með tilliti til sjálfbærni þar sem sérstaklega var farið yfir nýjustu uppfærslu MIFID-reglugerðarinnar (Markets in Financial Instruments Directive II). Breytingarnar veita fjárfestum tækifæri til að koma óskum sínum um sjálfbærni á framfæri en með aukinni upplýsingagjöf um umhverfislega sjálfbæra atvinnustarfsemi ásamt auknu gagnsæi frá aðilum á fjármálamarkaði um vörur sínar og þjónustu á að gera það kleift að óskir fjárfesta með tilliti til sjálfbærni séu uppfylltar. Einnig var vinnustofa haldin í október 2023 með það að markmiði að auka umræðu og þekkingu á aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga og stýringu á sjálfbærniáhættu. 

Sjálfbærniáhættustefna

pdfsjálfbærniáhættustefna Kviku eignastýringar var samþykkt á árinu 2023 en þar er lýst hvernig Kvika eignastýring samþættir sjálfbærniáhættu inn í fjárfestingarákvarðanir og -ráðgjöf. Stefnan tekur mið af skilgreiningu SFDR á sjálfbærniáhættu og tekur tillit til sjálfbærnistefnu Kviku eignastýringar, stefnu Kviku eignastýringar um ábyrgar fjárfestingar og sjálfbærniáhætturamma Kviku. Í stefnunni eru gerð skil á helstu áhættuþáttum sem falla undir sjálfbærniáhættu en það eru umhverfis- og félagslegir þættir sem og stjórnarhættir fyrirtækja sem fjárfest er í.

Framtakssjóðir Kviku eignastýringar

Fyrsti framtakssjóður Kviku eignastýringar var stofnaður árið 2008 en framtakssjóðirnir eru nú fjórir og hafa leitt hátt í 25 ma.kr. fjárfestingu í 25 fyrirtækjum. Framtakssjóðirnir eru Auður I, Edda, Freyja og Iðunn. 


Framtakssjóðirnir eru áhrifafjárfestar sem leggja áherslu á að styðja stjórnendur með markvissum hætti í að bæta rekstur og árangur félaganna með langtímaávöxtun og sjálfbærni að leiðarljósi. Kvika eignastýring hvetur félög sem fjárfest er í til að sýna samfélagslega ábyrgð, tileinka sér góða viðskipta- og stjórnarhætti, gæta að fjölbreytni í stjórnum og huga að umhverfismálum. 

Til þess að efla þekkingu fyrirtækjanna, sem fjárfest hefur verið í, á málefnum tengdum sjálfbærni var haldin sjálfbærnivinnustofa í janúar 2023 með sérfræðingum frá Lab21st. Forstjórar, fjármálastjórar og sjálfbærnifulltrúar 11 fyrirtækja í eigu framtakssjóðanna tóku þátt í vinnustofunni. Farið var yfir tækifæri tengd sjálfbærni og hringrásarhagkerfinu sem og breytingar á löggjöf þegar kemur að sjálfbærni og upplýsingagjöf fyrirtækja.


Sérstök sjálfbærniskýrsla framtakssjóða Kviku eignastýringar er gefin út árlega til fjárfesta í sjóðunum en þar eru meðal annars gerð skil á frammistöðu sjóðanna með tilliti til ákveðinna UFS-þátta. Ánægjulegt er að greina frá því að yfir 80% af fyrirtækjunum eru með aðgerðir til að auka vellíðan starfsmanna og yfir 60% mæla kolefnisspor sitt. Hlutfall þeirra sem hafa innleitt jafnlaunastefnu er yfir 70% og hjá 45% félaganna eru kvenkyns forstjórar. Sjálfbærniskýrslan fyrir árið 2022 var þriðja slíka skýrslan sem framtakssjóðirnir senda frá sér til fjárfesta.

UFS-áhættumat

Hjá Kviku eignastýringu eru langtímahagsmunir í þágu viðskiptavina hafðir að leiðarljósi. Í því felst að meðal annars er tekið tillit til málefna sem snerta UFS-vinnu hjá þeim félögum sem fjárfest er í. Í takt við nýja sjálfbærniáhættustefnu auk stefnu félagsins um ábyrgar fjárfestingar hefur atvinnugreinamiðað UFS-áhættumat, einnig kallað sjálfbærniáhættumat, Kviku eignastýringar verið þróað enn frekar á árinu. Sú vinna tók tillit til nýrra krafna í regluverki og uppfærslu á aðferðafræðinni. UFS-áhættumatið var sett fram í þeim tilgangi að meta sjálfbærniáhættu innlends eignasafns Kviku eignastýringar. Gildissvið þess hefur verið íslenskir útgefendur skráðra og óskráðra verðbréfa að undanskildum sveitarfélögum, ríki og rekstraraðilum sjóða. Á árinu 2023 var unnið að því að víkka gildissvið UFS-áhættumatsins þannig að nú er hægt að varpa því á útlánastarfsemi með því að taka tillit til atvinnugreinamiðaðra áhættuþátta. Við gerð áhættumata er horft til mismunandi atriða þar sem þau eru ólík eftir eignaflokkum og fjárfestingarteymum. UFS-áherslur geta átt við í öllu fjárfestingarferlinu, það er frá athugun á fjárfestingarkostum, við áreiðanleikakönnun og yfir eignarhaldstímann. 

TM

TM hefur um árabil haft sjálfbærni í forgrunni og vinnur að því að dýpka innleiðingu UFS-þátta í starfsemi félagsins. Innleiðing á sjálfbærni snertir alla meginþætti starfsemi TM en það er í eigin starfsemi, í fjárfestingum og vátryggingum. Á árinu var aukin áhersla lögð á þekkingu starfsmanna á UFS-þáttum í starfsemi TM og í þeim tilgangi var haldin kynning um áherslur í málaflokknum fyrir stjórnendur. Ráðgert er að halda sams konar kynningu fyrir starfsfólk TM á fyrri hluta árs 2024.


Helstu UFS-málefni í starfsemi TM má sjá í yfirlitinu hér að neðan.

Eigin starfsemi

  • Umhverfismál í eigin rekstri
  • Jafnréttismál
  • Stjórnarhættir
  • Viðskiptahættir

Fjárfestingar

  • Ábyrgar fjárfestingar
  • Græn skuldabréf
  • PCAF mat á fjárfestingasafni

Vátryggingar

  • Val á viðskiptum út frá UFS viðmiðum
  • Grænar vörur
  • Ábyrg tjónaþjónusta
  • Áhættumat nýrra viðskipta >50 manna fyrirtæki

Stýring sjálfbærniáhættu hjá TM

pdfSjálfbærniáhættustefna TM var mótuð á árinu samkvæmt sjálfbærniáhætturamma samstæðunnar. Stefnan inniheldur þrjár undirstefnur sem lýst er hér að neðan.

Stefna um ábyrgar fjárfestingar

Markmið stefnu TM um ábyrgar fjárfestingar er að samþætta sjálfbærni, eða UFS-þætti, við núverandi verkferla þegar fjárfestingarákvarðanir eru teknar. Framkvæmd stefnunnar felur meðal annars í sér að taka mið af UFS-þáttum við greiningu fjárfestingarkosta, að vera virkur eigandi þegar við á og taka þá tillit til UFS-þátta og að kalla eftir upplýsingum um UFS-þætti frá hagaðilum þegar við á.

Stefna um ábyrgt vöru- og þjónustuframboð

Með ábyrgu vöru- og þjónustuframboði er átt við að tekið sé mið af UFS-þáttum við stofnun nýrrar vöru eða þjónustu og við þróun þeirra. Við innleiðingu stefnunnar mun meðal annars vera kallað eftir upplýsingum um UFS-þætti þegar það á við, tekið tillit til annarra stefna sem snúa að sjálfbærni og útgáfa skýrslna um árangur innleiðingu stefnunnar.

Stefna um sjálfbærni í tjónaþjónustu og forvarnir

Með ábyrgri tjónaþjónustu er átt við að UFS-þættir eru teknir til greina við úrvinnslu tjóna. Meðal stefnumiða er takmörkun kolefnisspors tjóna og að stuðlað sé að því að tjónamunir renni inn í hringrásarhagkerfið að því marki sem unnt er með endurnotkun, viðgerð eða endurvinnslu. Einnig eru sett inn viðeigandi ákvæði í samninga við þjónustuaðila í tjónum, efling á fræðslu til starfsfólks, viðskiptavina og annarra hagaðila og virk upplýsingagjöf.

Hjá TM er hafin vinna við mat á loftslagsáhættu sem einum lið í áhættustýringu félagsins. Þess ber þó að geta að  stærsti hluti tjóna sem rekja má til náttúruhamfara af völdum loftslagbreytinga er á ábyrgð Náttúruhamfaratrygginga Íslands og því ekki stór hluti af áhættustýringu í rekstri félagsins. Mat á loftslagsáhættu var í fyrsta sinn hluti af eigin áhættu og gjaldþolsmati TM, eða ORSA (e. Own Risk and Solvency Assessment) áhættumati, fyrir árið 2022 en þar er meðal annars lagt mat á áhættu vegna loftslagsbreytinga og gerðar sviðsmyndagreiningar tengdar áhættunum. Niðurstöður matsins eru skjalfestar í ORSA skýrslu félagsins. TM metur loftslagsáhættu út frá tveimur meginflokkum slíkrar áhættu en þeir eru raunlæg áhætta og umbreytingaráhætta.

Þróun í ábyrgum fjárfestingum TM

Umfangsmikil vinna hefur átt sér stað innan TM við að mæla umhverfisáhrif fjárfestinga félagsins en ábyrgar fjárfestingar eru meginstoð í UFS-stefnu TM sem og sjálfbærniáhættustefnu félagsins. Búið er að innleiða UFS-áhættumat í allar nýjar fjárfestingar samkvæmt sjálfbærniáhættustefnunni. Á árinu var farið í vinnu við flokkun skaðatrygginga TM samkvæmt Flokkunarreglugerðinni. Í vátryggingastarfsemi falla flestar skaðatryggingar undir gildissvið reglugerðarinnar (e. eligible). Líftryggingar og ábyrgðartryggingar gera það hins vegar ekki. TM miðar við að reglugerðin nái yfir þær vátryggingar sem undanskilja ekki áhættu vegna atburða sem tengjast loftslagsbreytingum, bótaskylda vegna slíkra atburða er þá ekki undanskilin í skilmálum félagsins. Reglugerðin nær því yfir eftirtalda flokka vátrygginga:

  • Eignatryggingar
  • Sjó-, flug- og framtryggingar
  • Ökutækjatryggingar
  • Slysatryggingar

Á fyrsta innleiðingarári falla 92% af iðgjöldum skaðatrygginga að reglugerðinni (e. aligned) en til þess að vátryggingar geti fallið að Flokkunarreglugerðinni þurfa þær að uppfylla sérstök viðmið sem þar eru sett fram. TM birtir upplýsingar samkvæmt 8. gr. Flokkunarreglugerðarinnar sem nálgast má í viðauka við ársreikning félagsins fyrir árið 2023.

Sjálfbærni í forvörnum og tjónavinnslu

Áhersla á sjálfbærni í vátryggingaþjónustu, forvörnum og vöruúrvali voru í forgrunni hjá TM á árinu 2023 sem fólst meðal annars í innleiðingu á UFS-áherslum við endurnýjun samninga við verkstæði og þjónustuaðila sem sinna tjónamálum eigna og ökutækja. Þá er einnig unnið að innleiðingu á nýju kerfi fyrir eignatjón sem gefur meiri möguleika á stýringu fyrir vinnslu tjóna þar sem tillit er tekið til endurnýtingar tjónamuna eða förgunar.  


Hjá TM hafa tjónamunir verið endurnýttir um árabil. Rekið er sérstakt endurvinnslurými þar sem tjónamunir eru geymdir og þeim fundið nýtt hlutverk. Sérstök ákvæði hafa verið sett í samninga um ábyrga tjónaförgun þar sem vísað er í endurvinnslu, flokkun, endurnýtingu og förgun.  


TM hefur stutt við innleiðingu á tæknibúnaði frá Hefring Marine sem mælir meðal annars högg sem farþegar verða fyrir við siglingu farþegabáta/RIB-báta. Þetta hefur stuðlað að forvörnum og fækkun slysa hjá viðskiptavinum TM sem meðal annars njóta þess í lægri iðgjöldum. 

TM var þátttakandi í vinnuhópi Samtaka fjármálafyrirtækja um gerð nýrrar útgáfu af loftlagsvegvísi atvinnulífsins. Niðurstaða hópsins var að leggja áherslu á að draga úr tjónum með forvörnum og minnka kolefnisspor við úrvinnslu tjóna með því að stuðla að því að tjónamunir renni inn í hringrásarhagkerfið að því marki sem unnt er með endurnotkun, viðgerð eða endurvinnslu.

Niðurstaða var að leggja sérstaka áherslu á eftirfarandi þætti:

  • Auka forvarnir gegn tjónum
  • Auka framboð á innlendum notuðum varahlutum í ökutæki
  • Efla fræðslu til viðskiptavina

Aðild TM að Principles for Sustainable Insurance (PSI)

TM gerðist aðili að alþjóðlegum sjálfbærniramma fyrir tryggingafélög, Principles for Sustainable Insurance (PSI), í byrjun árs 2023. PSI er samvinnuverkefni Sameinuðu þjóðanna og vátryggingafélaga og snýr að stjórnun umhverfis, félags og stjórnunaráhættu sem og nýtingu tækifæra.


Með aðildinni hefur TM skuldbundið sig til að vinna samkvæmt viðmiðum PSI en þau eru: 

  • Innleiðing UFS-þátta í starfsemi félagsins.
  • Samstarf við viðskiptavini og samstarfsaðila um vitundarvakningu á málefnum sjálfbærni með áherslu á áhættustjórnun UFS-þátta og þróun viðeigandi lausna. 
  • Samstarf við stjórnvöld og aðra meginhagaðila til að auka vitund um UFS-málefni. 
  • Regluleg skýrslugjöf um árangur í innleiðingu viðmiðanna. 

Með aðild að PSI fær TM aðgang að ýmsu fræðsluefni fyrir starfsfólk sem nýtist við þjálfun og vitundarvakningu um UFS-málefni. Fyrstu skýrslu um árangur á innleiðingu viðmiða PSI var skilað inn til samtakanna í árslok 2023. 

Fjártækni og nýsköpun

Markmið okkar er að auka samkeppni, einfalda fjármál viðskiptavina og umbreyta þannig fjármálaþjónustu á Íslandi. Í pdfskýrslu sem gefin var út á árinu á vegum starfshóps menningar- og viðskiptaráðherra er varpað ljósi á bættan hag neytenda á ýmsum sviðum bankaþjónustu undanfarin ár. Aukin samkeppni á innlánamarkaði með tilkomu sparnaðarreikninga Auðar var nefnd sérstaklega í því samhengi. Auður hefur átt góðu gengi að fagna frá því hún mætti á sjónarsviðið og er með rúmlega 40 þúsund notendur en á árinu var tilkynnt að Auður var efst meðal 145 fyrirtækja í meðmælakönnun Maskínu.


Við leggjum áherslu á nýsköpun í vöruþróun og þjónustu og þróun stafrænna lausna en þær fela í sér bæði samfélagslegan og umhverfislegan ávinning svo sem tímasparnað fyrir viðskiptavini, minni pappír og færri bílferðir. Nýjar lausnir í vöruúrvali og þjónustu við viðskiptavini Kviku hafa litið dagsins ljós á árinu og má þar nefna stofnun Straums, útgáfu rafrænna greiðslukorta Aurs og aukna starfræna fjármálaþjónustu.  


Ásamt því að leggja áherslu á nýsköpun í vöruþróun er mikill metnaður innan vörumerkja samstæðunnar til að láta gott af sér leiða með hjálp fjártæknilausna, og meðal annars hafa mörg samtök verið styrkt í gegnum þjónustu Aurs með þeim hætti að þóknanir eða færsluhirðingagjöld eru felld niður. Samtökin nýta Aur til að gera fólki kleift að styrkja starfsemi þeirra, ýmist beint eða með sölu varnings.


Í takt við stafræna vegferð samstæðunnar eru nánast öll útlán og innlán rafræn en hlutfall rafrænt stofnaðra útlána á árinu var 99,9% og hlutfall rafrænt stofnaðra innlána var 98,1%. Mikið af vörumerkjum samstæðunnar eru alfarið stafræn eða nýta tækifæri til að sjálfvirknivæða ferla. Má þar nefna miklar breytingar sem hafa orðið á ferli fjármögnunar ökutækja og vinnuvéla hjá Lykli bæði fyrir einstaklinga og lögaðila. Í dag eru nánast öll lán og samningar samþykktir rafrænt sem er til hagsbóta fyrir alla sem koma að ferlinu en það eru viðskiptavinir Lykils, samstarfsaðilar og sýslumenn um allt land.  Lykill hefur lagt mikla áherslu á sjálfvirknivæðingu en viðskiptavinir geta nú samþykkt beiðni um upplýsingaöflun, framkvæmt greiðslumat, undirritað skuldabréf og samninga, framkvæmt eigendaskipti og undirritað öll gögn rafrænt. 

Samfélagið

Fólkið okkar

Starfsfólk Kviku er afar mikilvægt því þekking þess og færni hefur fært félagið á þann stað sem það er á í dag. Í árslok 2023 var fjöldi starfsfólks 374 hjá samstæðunni í samanburði við 386 í árslok 2022. Þá er talin með starfsemin í Bretlandi. Á árinu var haldið áfram að samþætta meirihluta starfseminnar á Íslandi eftir að hún hafði sameinast undir einu þaki sumarið 2022 og áfram unnið að því að starfsfólk kynnist og þekki starfsemi þeirra ólíku eininga sem eru innan samstæðunnar.

Velferð starfsfólks

Hjá Kviku er lagt upp úr því að skapa jákvætt og öruggt starfsumhverfi þar sem allir hafa sömu tækifæri. Markaðar hafa verið mannauðs- og jafnréttisstefnur ásamt stefnum um heilsu, fræðslu starfsfólks og fjarvinnu. Þá var stefna um starfslok vegna aldurs innleidd og leggur hún áherslu á að nálgast starfslok vegna aldurs með virðingu og sveigjanleika að leiðarljósi. 


Góð heilsa er forsenda velgengni í starfi sem og á öðrum sviðum lífsins. Til að stuðla að betri heilsu og líðan starfsfólks eru veittir líkamsræktar- og samgöngustyrkir og býðst starfsfólki að fara í bólusetningar og heilsufarsskoðanir á vinnustaðnum árlega. Þá hafa verið haldnar heilsuvikur þar sem boðið er upp á fræðsluerindi og ýmiss konar hreyfingu og hvatningu til starfsfólks um að huga að heilsunni.

Starfsfólki stendur einnig til boða heilsuræktartímar í hádeginu tvisvar í viku á kostnað félagsins auk þess sem stöku sinnum er boðið upp á stutta jógatíma á vinnustaðnum. Að auki er boðið upp á hollan og næringarríkan morgun- og hádegisverð alla daga og hollt millimál er aðgengilegt öllu starfsfólki.  

Fræðsla

Fjölmörg námskeið og önnur fræðsla stendur starfsfólki til boða, bæði valkvætt efni og skylduefni, sem eykur þekkingu þess á starfseminni og eflir færni. Í flestum tilfellum fer miðlun efnisins fram gegnum stafrænt fræðslukerfi sem heldur jafnframt utan um ástundun starfsfólks í fræðslu. Þá eru einnig haldin styttri námskeið og erindi í húsakynnum Kviku. Að meðaltali sótti hver starfsmaður Kviku 40 stafræn námskeið á árinu 2023, 35 skyldunámskeið og fimm valkvæð námskeið. 


Fræðsla í sjálfbærni var með margvíslegum hætti og má þar nefna sérstakar kynningar á sjálfbærniskýrslum ásamt reglulegum örnámskeiðum um afmarkað efni á sviði sjálfbærni. Meðal annarra námskeiða voru valfrjáls námskeið um lífeyrismál, annars vegar miðuð að því starfsfólki sem nálgast starfslok vegna aldurs og hins vegar miðuð að öllu starfsfólki. Auk þess var haldið námskeið fyrir sumarstarfsfólk og yngri starfsmannahópinn um fjármál ungs fólks, fyrstu íbúðarkaup og fleira. 


Á árinu fór hluti starfsfólks Kviku, Kviku eignastýringar og TM á námskeið um ábyrgar fjárfestingar á vegum UN PRI. Námskeiðin fara m.a. yfir meginreglur UN PRI, aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga, tækifæri og áhættur í innleiðingu UFS-þátta í greiningu á fjárfestingarkostum. Fræðsla starfsfólks í UFS-málefnum er ein af meginforsendum árangurs í innleiðingu UFS-áherslna í fjárfestingarákvörðunum. 

Starfskjör og mælikvarðar

Markvisst er unnið eftir starfskjarastefnu Kviku og eru reglulega framkvæmdar launagreiningar til að fylgjast með launaþróun á markaði svo tryggja megi að félagið bjóði samkeppnishæf laun í samræmi við umsvif, ábyrgð og árangur. Sjálfbærniáhætta hefur verið innleidd í starfskjarastefnu félagsins og er tekið mið af sjálfbærniáhættu í árangursviðmiðum kaupaukakerfis. 


Kvika banki, TM og Kvika eignastýring eru öll með vottað jafnlaunakerfi samkvæmt kröfum staðalsins ÍST 85:2012. Launamunur kynja er mældur ársfjórðungslega innan allra félaga til að vakta með markvissum hætti launamun kynja. Upplýsingamiðlun til stjórnenda um launaþróun, sem og aðra mælikvarða á sviði mannauðsmála, hefur verið efld. Með aukinni notkun á hugbúnaðinum Power BI þegar kemur að greiningu og hagnýtingu gagna er fylgst með mælikvörðum á borð við starfsmannaveltu, veikindafjarvistir og þátttöku í fræðslu.

Viðhorf

Til að fá sem besta mynd af líðan starfsfólks og viðhorfi til vinnustaðar, starfs síns og stjórnunar er árlega framkvæmd viðhorfskönnun þar sem könnuð er meðal annars helgun í starfi, starfsánægja, streita, viðhorf til jafnréttismála og jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Þá er einnig spurt um starfstengt einelti, áreitni eða ofbeldi. Í kjölfar slíkra kannana er rýnt í niðurstöður og sett upp aðgerðaáætlun eins og við á hverju sinni. 


Könnunin fyrir árið 2023 sýndi að starfsánægja er mikil og helgun hefur styrkst ár frá ári. 


Þá leiddi könnunin í ljós að starfsfólk upplifir jafnframt góðan starfsanda og samstarf sín á milli og er stolt af því að starfa hjá félaginu. Viðhorfskönnunin veitir einnig upplýsingar um tækifæri til umbóta og færir aukinn skilning á því hvernig við getum byggt upp styðjandi og hvetjandi starfsumhverfi. Þá færir greiningin okkur innsýn í þann mun sem kann að vera á viðhorfum eða upplifun starfsfólks milli ólíkra eininga.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Kvika styður við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og leggur áherslu á sex markmið sem falla best að sjálfbærnistefnu og rekstraráherslum samstæðunnar en þau eru markmið 3 um heilsu og öryggi, markmið 4 um menntun fyrir öll, markmið 5 um jafnrétti kynjanna, markmið 9 um nýsköpun og uppbyggingu, markmið 13 um aðgerðir í loftslagsmálum og markmið 17 um samvinnu um markmiðin. Heimsmarkmiðin hafa verið fléttuð inn í styrktarstefnu Kviku en samkvæmt stefnunni skulu heimsmarkmiðin höfð til hliðsjónar, sem og aðrar áherslur sjálfbærnistefnu Kviku, við val á verkefnum sem styrkt eru.


Kvika veitir margvíslega styrki sem hafa jákvæð samfélagsleg áhrif, en heildarupphæð styrkja sem veittir voru á árinu 2023 er 87 m.kr. Sem dæmi um styrki sem veittir voru á árinu má nefna styrk að upphæð 7,5 m.kr. úr Hvatningarsjóði Kviku sem veittur var til tíu iðnnema og sex kennaranema. Markmið Hvatningarsjóðs Kviku er að efla umræðu og vitund um mikilvægi iðn- og kennaranáms og mikilvægi starfa sem því tengjast fyrir íslenskt atvinnulíf en skortur er á iðn- og kennaramenntuðu starfsfólki. Styrkir úr Hvatningarsjóðnum tengjast Heimsmarkmiði 4 um menntun fyrir öll.

Á kvenréttindadaginn þann 19. júní fór fram úthlutun styrkja úr sjóði FrumkvöðlaAuðar en markmið sjóðsins er að hvetja ungar konur til frumkvæðis og athafna. Á árinu 2023 bárust sjóðnum 50 umsóknir um styrki og var fimm verkefnum veittur styrkur í þetta skipti. Þetta var í 14. sinn sem úthlutað var úr sjóðnum. 


Í yfirlitinu að neðan má sjá hvernig Heimsmarkmiðin sex falla að sjálfbærnistefnu Kviku.

Umhverfis- og loftslagsmál

Kvika getur haft mestu áhrifin á umhverfis- og loftslagsmál í gegnum lánveitingar og fjárfestingar. Við styðjum við markmið íslenskra stjórnvalda um kolefnishlutleysi árið 2040 og metum nú meðal annars losun gróðurhúsalofttegunda sem tengjast fjárfestingum og lánveitingum félagsins. Mikil aukning var í grænum skuldbindingum Kviku á árinu 2023 en nánari upplýsingar eru í úthlutunar- og áhrifaskýrslu félagsins sem finna má í þessum kafla. 


Markvisst er einnig unnið að því að takmarka umhverfisáhrif frá eigin starfsemi og draga úr þeim eftir bestu getu en hér má finna pdfumhverfis- og samgöngustefnu Kviku. Haldið er utan um gögnin í stafrænu umhverfisstjórnunarkerfi í samstarfi við Klappir Grænar Lausnir hf. Umhverfisbókhaldið hefur verið tekið út og staðfest af löggiltum endurskoðanda með takmarkaðri vissu. Á undanförnum árum hefur starfsemin tekið töluverðum breytingum með kaupum á öðrum félögum og sameiningu á starfseminni á einn stað. Í yfirliti hér síðar þar sem gerð eru skil á helstu umhverfisvísum með samanburði við síðustu ár kemur fram aukning í umfangi á flestum vísunum sem skýrist að miklu leyti af auknum umsvifum.


Stýring umhverfisáhættu, sem hluti af sjálfbærniáhættu, er stór þáttur í innleiðingu nýrra reglugerða ESB um upplýsingagjöf á sviði sjálfbærni. Yfirstandandi er vinna hjá öllum einingum samstæðu Kviku við mótun mælanlegra umhverfismarkmiða og aðgerðaráætlana en enn sem komið er hafa mælanleg markmið ekki verið sett. 

Innleiðing á Flokkunarreglugerðinni

Hjá Kviku hefur verið unnið að innleiðingu á Flokkunarreglugerðinni en markmið reglugerðarinnar er meðal annars að auka gagnsæi og beina fjármagni í frekara mæli í umhverfislega sjálfbærar fjárfestingar. Samstæðu Kviku ber að birta hlutfall þeirra eigna sem fjármagna atvinnustarfsemi sem reglugerðin nær yfir. Undir það falla útlán og fjármögnun stórra fyrirtækja samkvæmt lögum um ársreikninga, útlán og fjármögnun einstaklinga, en það eru bílalán og húsnæðislán, ásamt fjárfestingum í félögum sem falla undir nánar skilgreind viðmið í lögum um ársreikninga.  


Til að framfylgja ákvæðum flokkunarreglugerðarinnar var framkvæmd greining á því hvaða eignir uppfylla tækniviðmiðin sem sett eru fram í framseldum gerðum og reiknað hlutfall grænna eigna (e. green asset ratio, GAR). Hlutfall grænna eigna er hlutfall eigna samstæðunnar sem fjármagna eða fjárfest er í atvinnustarfsemi sem fellur að flokkunarkerfinu (e. taxonomy aligned) af heildarumfangi eigna.


Hlutfall grænna eigna samstæðunnar samkvæmt Flokkunarreglugerðinni í lok árs 2023 er 0%. Er það einkum vegna að þess að samkvæmt lögum um ársreikninga munu fyrirtæki sem birta eftir 8. gr. reglugerðarinnar ekki birta upplýsingar til samræmis við reglugerðina fyrr en í upphafi árs 2024 og því eru ekki til staðar upplýsingar um hvort starfsemi félaganna, sem eignirnar liggja í við lok árs 2023, sé umhverfislega sjálfbær. Lán og fjármögnun einstaklinga uppfylla ekki kröfur í tækniviðmiðum framseldra gerða Flokkunarreglugerðarinnar og falla því ekki að Flokkunarreglugerðinni á fyrsta innleiðingarári.


Kvika birtir upplýsingar samkvæmt 8. gr. Flokkunarreglugerðarinnar eftir sniðmátum framseldrar reglugerðar (10/2024) í viðauka við ársreikning.

Umhverfisvísar

Í töflunum hér að neðan má sjá helstu umhverfisvísa ársins 2023 og þróun á milli ára. Í framhaldi af sameiningu rekstrar íslensku eininga samstæðu Kviku á árinu 2022 að Katrínartúni 2 hafa umsvif aukist og má sjá þessa aukningu í niðurstöðum helstu umhverfisvísa. 


Mesta losun gróðurhúsalofttegunda samstæðunnar er í umfangi 3, sem á árinu 2023 var 434,3 tonn CO2-ígilda. Undir umfang 3 falla samgöngur og viðskiptaferðir starfsfólks auk úrgangs frá rekstri. Mesta losunin kemur frá samgöngum og viðskiptaferðum og má rekja aukningu á losun í umfangi 3 frá fyrra ári meðal annars til aukningar á flugferðum en minna var flogið á árunum 2021 og 2022 vegna heimsfaraldursins.


Unnið er að því að ná betri yfirsýn yfir úrgangsmyndun og bæta mælingar úrgangs en áhersla er lögð á sjálfvirknivæðingu viðeigandi ferla. Góður árangur hefur náðst í flokkun úrgangs á árinu. Þetta yfirlit á umfangi 3 nær ekki til losunar frá lána- og eignasafni samstæðunnar né förgunar á tjónamunum út frá tryggingastarfsemi en frekari umfjöllun um ábyrga tjónaförgun er að finna í kaflanum um TM.

Losun á árinu og kolefnisjöfnun

Við vinnum að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá eigin starfsemi og leitum leiða til þess að sporna við loftslagsbreytingum í virðiskeðjunni í gegnum val á birgjum sem og í fjárfestingum og lánveitingum. Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda hjá Kviku, í umfangi 1, 2 og 3, á árinu 2023 nam 535 tonnum CO2-ígilda.


Í samstarfi við Climate Impact Partners sem eru sérfræðingar í kolefnismarkaðslausnum fyrir loftslagsaðgerðir, hefur losun gróðurhúsalofttegunda í umfangi 1–3 tengt hefðbundinni starfsemi samstæðunnar verið kolefnisjöfnuð með kaupum á hágæða vottuðum einingum. Þessar einingar hjálpa til við að fjármagna verkefni sem draga úr losun um allan heim og styðja við umskipti yfir í lágkolefnishagkerfi. Öll verkefnin eru tekin út til að tryggja að raunverulega sé verið að draga úr losun.


Við leggjum sérstaka áherslu á að styðja við náttúrutengd verkefni sem fjarlægja kolefni úr andrúmsloftinu með gróðursetningu skóglendis, skógrækt og endurheimt graslendis. Hvert verkefni í eignasafninu sem við höfum keypt einingar af skilar einnig margvíslegum ávinningi, allt frá verndun líffræðilegs fjölbreytileika til staðbundinnar atvinnusköpunar, sem er í takt við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.


Nánari upplýsingar um verkefnin má finna á heimasíðu Climate Impact Partners.

Kolefnisjöfnunin vegur á móti þeirri losun sem er óhjákvæmileg í rekstri samstæðunnar en losun frá meðal annars lána- og eignasafni samstæðunnar er ekki inni í kolefnisjöfnuninni.


Kolefniseiningar til framtíðar

Í lok árs 2023 festi Kvika kaup á kolefniseiningum hjá Yggdrasil Carbon en það eru einingar sem munu raungerast í framtíðinni. Verkefni Yggdrasils eru mótuð með framtíðarsýn til 50 ára en um er að ræða einingar sem tengjast nýskógræktarverkefni á Arnaldsstöðum. Nánari upplýsingar má finna á vef Yggdrasils Carbon. Kolefniseiningarnar sem Kvika hefur keypt eru vottaðar samkvæmt Skógarkolefni sem er kröfusett Skógræktarinnar.  

Fjármögnuð losun

Á árinu 2022 gerðist Kvika aðili að Partnership for Carbon Accounting Financials (PCAF) sem er alþjóðlegt samstarfsverkefni fjármálafyrirtækja sem vinna saman að þróun og innleiðingu samræmdrar nálgunar við að meta og upplýsa um losun gróðurhúsalofttegunda sem þau fjármagna með lánum og fjárfestingum. Félagið hefur nú í annað sinn reiknað fjármagnaða losun gróðurhúsalofttegunda með aðferðafræði PCAF og stefnir á að birta sérstaka skýrslu með þeim niðurstöðum á árinu 2024.

Græn fjármálaumgjörð

Fjármálastofnanir hafa mikilvægu hlutverki að gegna við að beina fjármagni til verkefna sem hafa jákvæð áhrif á umhverfið og sporna við loftslagsáhrifum sem og að mæta vaxandi kröfum viðskiptavina um fjárfestingarkosti sem stuðla að aukinni sjálfbærni.  


Græn fjármálaumgjörð Kviku lýsir hvernig fjármunum er úthlutað til grænna verkefna. Undir græn verkefni falla lánveitingar sem snúa að orkuskiptum í samgöngum, umhverfisvottuðum byggingum og endurnýjanlegri orku. Græna fjármálaumgjörðin byggir á alþjóðlegum viðmiðum (Green Bond Principles) sem gefin voru út af Alþjóðasamtökum aðila á verðbréfamarkaði (International Capital Market Association – ICMA). Umgjörðin fékk jákvætt álit frá alþjóðlega mats- og greiningarfyrirtækinu Sustainalytics og kom þar fram að umgjörðin sé trúverðug og hafi alla burði til þess að verða áhrifarík.


Viðmið Green Bond Principles sem stuðst er við í grænni fjármálaumgjörð Kviku eru: 

  1. Ráðstöfun fjármuna
  2. Ferli við mat og val verkefna
  3. Stýring fjármuna
  4. Skýrslugjöf og úttekt

Í sjálfbærnistefnu Kviku og pdfstefnu bankans um ábyrgar lánveitingar og fjárfestingar, sem er viðauki við lánareglur, eru settar fram áherslur í grænum og sjálfbærum lánveitingum. Hagrænir innri hvatar hafa verið settir fyrir viðskiptaeiningar bankans sem fela í sér hagstæðari innri verðlagningu á græn verkefni. Þannig eru tekjusviðin hvött til að fjárfesta í grænum verkefnum og auka hlut grænna lánveitinga sem stuðla einnig að auknum grænum fjárfestingum. Ársfjórðungsleg staðfesting grænna eigna, samkvæmt ákvæðum grænnar fjármálaumgjarðar Kviku, er í höndum lánanefndar bankans. 


Kvika banki hefur gefið út þrjá skuldabréfaflokka undir grænu fjármálaumgjörðinni, tvo í íslenskum krónum og einn í sænskum krónum. Var það fyrsti græni skuldabréfaflokkur íslensks banka í sænskum krónum en hann var gefinn út í lok árs 2023. Góður vöxtur hefur verið í grænum eignum Kviku sem endurspeglast í grænni fjármögnunargetu félagsins og er áætlað að sá vöxtur haldi áfram eftir því sem þekking innan lánasviða eykst og lánabækur stækka.

Úthlutunar- og áhrifaskýrsla

Árlega eru gerð skil á grænum skuldbindingum samkvæmt grænni fjármálaumgjörð bankans. Úthlutunar- og áhrifaskýrsla bankans er gefin út sem hluti af sjálfbærniskýrslu Kviku. Heildarstaða grænna skuldbindinga við árslok 2023 nam samtals 13.320.150.648 kr. en það er heildarupphæð útgefinna grænna skuldabréfa og innstæðna grænna framtíðarreikninga Auðar. Grænar skuldbindingar hækkuðu um 108,36% á síðasta ári.


Öllum grænum skuldbindingum hefur verið ráðstafað innan eignaflokksins „orkuskipti í samgöngum“ með bílalánum til kaupa á rafbílum eða tengiltvinnbílum á vegum Lykils. Þannig býr Kvika til hvata til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og styður við sjálfbærnivegferð viðskiptavina. 

Grænar vörur

Græn lán Lykils

Lykill býður upp á hagstæð lán fyrir kaup á bílum sem ganga fyrir endurnýjanlegri orku. Þar er átt við rafmagns- og vetnisbíla sem ganga fyrir 100% endurnýjanlegri orku og tengiltvinnbíla með mengunarstuðli undir 50 g CO2/km í samræmi við græna fjármálaumgjörð Kviku.  

Grænir framtíðarreikningar Auðar

Grænir framtíðarreikningar eru reikningar fyrir ungt fólk sem er umhugað um umhverfismál og vilja trygga ávöxtun á sparifé. Reikningarnir eru verðtryggðir og bjóða upp á hagstæð vaxtakjör. Á árinu 2023 var byrjað að veita fjölskyldumeðlimum sameiginlegan aðgang að upplýsingum um stöðu framtíðarreikninga. 

Fjármögnun vistvænna ökutækja hjá Kviku sem fellur undir grænu umgjörðina felur í sér farþegabíla, sendibíla, vörubíla, mótorhjól og vélar. Stærsti flokkurinn er farþegabílar. 

Til þess að setja þessa tölu í samhengi þá jafngildir sparnaðurinn á áætluðum útblæstri:

Stjórnarhættir og heilindi

Stjórnendur Kviku banka, sem er móðurfélag samstæðunnar og skráð félag á hlutabréfamarkaði Kauphallar Íslands, telja að góðir stjórnarhættir séu forsenda fyrir ábyrgum rekstri og trausti til félagsins í þágu allra hagaðila. Umgjörð um stjórnarhætti Kviku er byggð á samþykktum félagsins, stefnum og fyrirmælum samþykktum af stjórn og Leiðbeiningum um stjórnarhætti íslenskra fyrirtækja sem gefnar eru út af Viðskiptaráði Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Kauphöll Íslands. Einnig er viðmiðunarreglum evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar (EBA) um innri stjórnarhætti fjármálafyrirtækja (EBA/GL/2021/05) fylgt. 


Kvika banki og TM viðhalda viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum en það eru Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins, Kauphöll Íslands og Stjórnvísi sem standa að baki viðurkenningunni. Í henni felst að starfshættir stjórna félaganna eru vel skipulagðir og framkvæmd stjórnarstarfanna er til fyrirmyndar. Viðurkenningin byggir á úttekt á stjórnarháttum Kviku og TM sem tekur mið af leiðbeiningunum og er Stjórnvísi umsjónaraðili viðurkenningarferlisins. 


Upplýsingar um helstu atriði er varða stjórnarhætti er að finna í árlegri skýrslu stjórnar og stjórnarháttayfirlýsingu sem birt er í ársreikningi og á vef Kviku í samræmi við kröfur þar um. Starfsemi Kviku fer að hluta til fram í gegnum dótturfélög en Kvika sem móðurfélag ber ábyrgð á stjórnarháttum í samstæðu og hefur sett eigendastefnur fyrir mikilvæg dótturfélög bankans. Í stjórnarháttayfirlýsingu má meðal annars finna upplýsingar um helstu þætti innra eftirlits, áhættustýringar og reikningsskila hjá Kviku banka. Upplýsingar um stjórn Kviku banka er að finna í stjórnarháttayfirlýsingu og á vef bankans. 


Gildistaka laga um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar nr. 25/2023 hefur víðtæk áhrif á starfsemi bankans og snertir margar innri reglur, stefnur, verklag og ferla. Mikil vinna hefur verið lögð í málaflokkinn en áfram verður unnið að uppfærslu innri reglna, stefna, verklags og ferla til samræmis við nýja löggjöf þar til innleiðingu er að fullu lokið.   

Aðgerðir gegn efnahagsbrotum 

Í mars 2023 samþykkti stjórn Kviku banka í fyrsta sinn heildarstefnu fyrir samstæðu bankans um aðgerðir gegn efnahagsbrotum. Með sameiginlegri stefnu eru fyrirhugaðar samræmdar aðgerðir gegn efnahagsbrotum þvert á samstæðuna og gert ráð fyrir að dótturfélög bankans innleiði stefnuna í starfsemi sína með viðeigandi innri reglum, ferlum og verklagi.   


Markmið stefnunnar er að koma eftir fremsta megni í veg fyrir að starfsemi samstæðunnar verði notuð til hvers konar efnahags- og auðgunarbrota. Stefnunni er ætlað að sjá til þess að fullnægjandi stýringar og eftirlit sé með greindum áhættuþáttum í starfsemi samstæðunnar svo hægt sé með skilvirkum hætti að stýra og draga úr áhættu. 


Stefnan miðar að því að skilgreina þann ramma sem stjórn Kviku banka hefur sett og ætlast til að sé fylgt í daglegri starfsemi samstæðunnar þegar kemur að aðgerðum gegn efnahagsbrotum, í samræmi við viðeigandi löggjöf hverju sinni. Það er á ábyrgð viðeigandi eininga innan hvers félags að útfæra stefnuna nánar með ítarlegri verklagsreglum og ferlum með tilliti til og í samræmi við starfsemi hvers félags og umfangs hennar til að tryggja að stefnunni sé fylgt í hvívetna.    

Í stefnunni er meðal annars greint frá ábyrgð stjórnenda og starfsfólks með aðgerðum gegn efnahagsbrotum, áhættuvilja stjórnar móðurfélags og farið yfir viðhorf til eftirfarandi málaflokka:

  • Peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka
  • Efnahagsþvingana
  • Skattsvika
  • Mútna og spillingar
  • Markaðssvika

Gerð er krafa um að starfsfólk tilkynni regluvörslu án tafar um viðskipti eða færslur sem grunur leikur á að rekja megi til efnahagsbrota eða annarrar refsiverðrar háttsemi. Fylgja skal innri reglum bankans um verkferil við tilkynningar starfsmanna um brot á lögum eða ámælisverðri háttsemi. 


Innan Kviku er stöðugt unnið að því að efla varnir bankans gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Reglulega er áhættumat bankans og aðferðafræði endurskoðuð sem og gagnagæði vegna flokkunar fjárfesta, aukinnar þekkingar á málaflokknum og reglubundið eftirlit í fyrstu varnarlínu. 

Stefna um hlítingu

Ný stefna samstæðunnar um hlítingu var samþykkt af stjórn í febrúar 2023. Stefnan gildir fyrir alla starfsemi, starfsfólk og stjórnarmenn og er stjórnum eftirlitsskyldra dótturfélaga skylt að fjalla um stefnuna og sjá til þess að kröfur hennar séu innleiddar í daglega starfsemi þeirra.   


Stefnunni er ætlað að tryggja að öll starfsemi innan samstæðunnar sé í samræmi við lög, reglur, tilmæli og leiðbeiningar sem gilda um starfsemina á hverjum tíma. Jafnframt að skýra hlutverk og ábyrgð á hlítingu innan samstæðu og tryggja að fullnægjandi eftirlit sé ávallt til staðar. Þá fjallar stefnan um tilvist og hlutverk sjálfstæðrar eftirlitseiningar, regluvörslu, sem skal hafa eftirlit með hlítingaráhættu og styðja við það starfsfólk samstæðunnar sem ber ábyrgð á hlítingu í daglegum störfum sínum. 


Í stefnunni er skilgreindur áhættuvilji stjórnar gagnvart hlítingaráhættu og kemur fram að: 

„Það er vilji og krafa stjórnar að ávallt skuli stefnt að því að starfsemi samstæðu sé í samræmi við gildandi lög og reglur og hlíting og meðhöndlun hlítingaráhættu sé óaðskiljanlegur þáttur í hvers konar viðskiptum og verklagi.“ 

Gríðarlega miklar og flóknar lagalegar kröfur gilda um starfsemi fjármálafyrirtækja, útgefenda fjármálagerninga, rekstrarfélaga sjóða, tryggingafélaga og greiðsluþjónustuveitanda. Verkefni tengd innleiðingu nýrrar og komandi löggjafar hafa verið umfangsmikil undanfarin misseri og verða viðvarandi um ófyrirséða framtíð. Verkefnin eru alla jafna í hæsta forgangi innan félagsins og leggja stjórn og stjórnendur mikla áherslu á að stöðugt sé unnið að og viðhaldið menningu og viðhorfi sem stuðlar að hlítingu við þær kröfur sem gerðar eru til Kviku banka og samstæðunnar.

Siðareglur samstæðu Kviku

Í febrúar 2023 samþykkti stjórn Kviku nýjar siðareglur fyrir starfsfólk og stjórnarmenn. Reglurnar eru settar á samstæðugrundvelli og eru teknar óbreyttar inn í reglubækur dótturfélaga. Með sameiginlegum reglum er gætt að samræmdum grunnviðmiðum góðra viðskiptahátta og ber starfsfólki að hafa reglurnar að leiðarljósi í samskiptum sínum við viðskiptavini og aðra aðila í tengslum við störf sín. Starfsfólk staðfestir árlega fylgni við reglurnar. Siðareglum Kviku er ætlað að tryggja öryggi og hagsmuni viðskiptavina Kviku og annarra sem eiga hagsmuna að gæta í samskiptum sínum við og í störfum sínum fyrir samstæðuna. Enn fremur er tilgangur reglnanna að tryggja gott starfsumhverfi og stuðla að góðum starfsháttum. Reglunum er jafnframt ætlað að draga úr áhættu, einkum rekstrar- og orðsporsáhættu, sem getur haft skaðleg áhrif á samstæðuna. 


Í reglunum er meðal annars með skýrum hætti greint frá ábyrgð starfsfólks í störfum sínum, viðvarandi þagnarskyldu og viðeigandi meðferð upplýsinga, samskiptum við viðskiptavini, meðferð hagsmunaárekstra, kröfum um faglega þjónustu og vinnubrögð, hlítingu við lög og reglur, áhættustýringu og viðhorf til sjálfbærni. Með pdfsiðareglum Kviku banka fyrir birgja, sem settar hafa verið á grundvelli sjálfbærnistefnu félagsins, er kveðið á um þau UFS-viðmið sem birgjar og þjónustuaðilar skulu að lágmarki fylgja.

Upplýsingaöryggi

Lögð er áhersla á að tryggja að öll vinnsla persónuupplýsinga sé í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og á árinu 2023 var uppfærð pdfpersónuverndarstefna Kviku samþykkt. Með stefnunni eru veittar upplýsingar um það hvaða persónuupplýsingum Kvika banki safnar um viðskiptamann, hvernig bankinn vinnur persónuupplýsingar og í hvaða tilgangi, hversu lengi má ætla að upplýsingarnar séu geymdar, hvert þeim kann að vera miðlað og hvernig öryggi þeirra er gætt í starfsemi bankans.  


Kvika er með vottað stjórnunarkerfi upplýsingaöryggis samkvæmt ISO/IEC 27001 staðlinum og viðeigandi stefnu um upplýsingaöryggi. Stjórnunarkerfi upplýsingaöryggis tryggir að unnið sé eftir skipulögðum vinnubrögðum og ferlum í umgengni við mikilvægar upplýsingar og kerfi. Markmið Kviku er að tryggja ábyrga meðferð þeirra upplýsinga sem viðskiptavinir treysta Kviku fyrir og verja þær ásamt viðkvæmum upplýsingum er varða rekstur Kviku fyrir óviðkomandi aðilum. 


Kerfið styður við upplýsingaöryggisstefnu Kviku en markmið hennar eru meðal annars að: 

  • Lágmarka rekstraráhættu
  • Koma í veg fyrir hagsmunaárekstra
  • Auka þjónustustig upplýsingakerfa
  • Auka áreiðanleika og rekstraröryggi upplýsingakerfa

Hjá Kviku er gert kerfisbundið áhættumat til að ákveða hvort frekari ráðstafana sé þörf varðandi tiltekin gögn eða upplýsingakerfi og er upplýsingaöryggisstefna Kviku rýnd á að lágmarki tveggja ára fresti.

Tilvísunartafla

Um fyrirtækið

LýsingKafli / efniBls.GRI-vísar til hliðsjónar

Nafn skipulagsdeildarinnar

Kvika banki hf.

-

GRI 2-1 (a)

Eignarhald og félagaform

Skráð hlutafélag

-

GRI 2-1 (b)

Staðsetning höfuðstöðva

Katrínartún 2, 105 Reykjavík

-

GRI 2-1 (c)

Staðsetning rekstrar

Ísland og Bretland

-

GRI 2-1 (d)

Félög sem eru hluti af skýrslu um sjálfbærni

Kafli: Um skýrsluna

2

GRI 2-2

Tímabil og tíðni skýrslugjafar um sjálfbærni

1. janúar – 31. desember 2023, árleg

-

GRI 2-3 (a)

Tímabil skýrslugjafar um fjárhag

1. janúar – 31. desember 2023

-

GRI 2-3 (b)

Útgáfudagur skýrslu um sjálfbærni

15. febrúar 2024

-

GRI 2-3 (c)

Tengiliður fyrir skýrslu

Helena Guðjónsdóttir,
 kvika@kvika.is, s. 540 3200

-

GRI 2-3 (d)

Upplýsingar um starfsfólk

Kafli: Fólkið okkar

16

GRI 2-7


GRI 2-8

Umhverfi (U)

Losun gróðurhúslofttegunda

Orka

Vatnsnotkun

Úrgangur

Umhverfisstarfsemi

Loftslagseftirlit

Félagslegir þættir (F)

Starfsmannavelta

Vinnuumhverfi

Kynjajafnrétti

Laun

Hlutfall tímabundinna starfskrafta

Aðgerðir gegn mismunun

Stjórnarhættir (S)

Kynjahlutföll

Óhæði stjórnar

Kaupaukar

Kjarasamningar

Siðareglur birgja

Siðferði og aðgerðir gegn spillingu

Upplýsingagjöf um sjálfbærni