Þetta er í annað sinn sem Kvika gefur út sjálfbærniskýrslu um starfsemi sína. Skýrslan er gefin út samhliða ársreikningi Kviku og dótturfélaga og er ætlað að gefa heildstæða mynd af rekstri félagsins og árangri þess í málefnum sem snerta sjálfbærni, umhverfis- og félagsmál, sem og að veita upplýsingar um stjórnarhætti (UFS).
UFS-leiðbeiningum Nasdaq (ESG Reporting Guide 2.0) er fylgt við gerð skýrslunnar en einnig eru nýjustu útgáfur Global Reporting Initiative staðlanna (GRI 2021) hafðar til hliðsjónar og viðeigandi vísum svarað.
Í lokin er að finna tilvísunartöflu sem inniheldur upplýsingar um þá UFS-vísa sem er svarað og eru þær birtar ýmist í töflunni eða í texta skýrslunnar.
Innihald skýrslunnar varðar samstæðu Kviku (hér eftir „Kvika“). Skýrslan tekur til íslenskrar starfsemi Kviku, þ.e. Kviku banka hf. (hér eftir „Kvika banki“ eða „bankinn“), sem er móðurfélag samstæðunnar og dótturfélaganna TM trygginga hf. (hér eftir „TM“), Kviku eignastýringar hf. (hér eftir „Kvika eignastýring“), Straums greiðslumiðlunar hf. (hér eftir „Straumur“) og Skilaráðgjafar ehf. (hér eftir „Skilaráðgjöf“). Vörumerki Kviku banka eru Auður dóttir Kviku (hér eftir „Auður“), Framtíðin, Netgíró, Aur app (hér eftir „Aur“) og Lykill fjármögnun (hér eftir „Lykill“).
Starfsemi Kviku í gegnum breska dótturfélagið Kvika Securities Ltd. (hér eftir „Kvika Securities“) og Ortus Secured Finance Limited (hér eftir „Ortus“), sem er dótturfélag Kviku Securities, er almennt undanskilin umfjöllun skýrslunnar (upplýsingar um fjölda starfsfólks innihalda þó breska starfsemi Kviku). Stefnur Kviku Securities hafa að einhverju leyti verið samræmdar stefnum Kviku í málum sem snerta sjálfbærni en tölulegar upplýsingar, einkum fyrir umhverfisþætti, hafa enn sem komið er ekki verið samræmdar við aðra hluta samstæðunnar
Við hjá Kviku erum stolt af þeim árangri sem náðist á árinu 2022 þar sem sterkur grunnrekstur samstæðunnar í krefjandi markaðsaðstæðum skilar góðri rekstrarniðurstöðu. Munar þar um markvissa vinnu á undanförnum árum, að fjölga tekjustoðum undir reksturinn sem og það öfluga fólk sem skipar sér í raðir starfsfólks. Á árinu fékk Kvika banki lánshæfismat Baa2 hjá Moody‘s sem er ánægjulegur áfangi og styður við áframhaldandi þróun bankans. Matið er viðurkenning á Kviku banka sem traustum útgefanda skuldabréfa og móttakanda innstæða.
Á árinu tókum við mikilvæg skref í stefnumótun með þátttöku starfsfólks þvert á svið og dótturfélög þar sem verkefni voru skilgreind með það að markmiði að auka sjálfbærni í starfsemi Kviku. Sjálfbærni er nú orðinn hluti af okkar kjarnastarfsemi og ákvarðanatöku. Ný sjálfbærnistefna var samþykkt á árinu og leggjum við áherslu á að finna hvernig viðskiptaeiningar Kviku sem og rekstrarsvið og áhættustýring geta nýtt þau tækifæri sem felast í aðlögun samfélagsins að áhrifum loftslagsbreytinga. Áherslusviðin í nýju stefnunni eru nýsköpun og vöruþróun, sjálfbært viðskiptaumhverfi, samskipti, starfsfólk og samfélagið. Við styðjum við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og höfum valið okkur sex heimsmarkmið til að huga sérstaklega að, þau sem við teljum falla best að okkar starfsemi og áherslum í sjálfbærni.
Aukinn sveigjanleiki í fjarvinnu starfsfólks sem komið var á fót með kórónuveirufaraldrinum hefur verið fram haldið til þess að stuðla að heilbrigði og velmegun starfsfólks, um leið hefur verið sett ný fjarvinnustefna. Undir lok árs var ráðist í viðhorfskönnun meðal starfsfólks og annarra hagaðila Kviku um þau málefni sem þykja mikilvægust í vinnu okkar í átt að aukinni sjálfbærni. Umfjöllun um könnunina má finna í þessari skýrslu en niðurstöður hennar munu nýtast okkur til að forgangsraða og móta ný verkefni á áhrifasviði Kviku í málaflokknum.
Reykjavík, 15. febrúar 2023
Í stefnu Kviku er lögð áhersla á sjálfbærni í starfseminni. Með stefnunni er teiknuð upp skýr framtíðarsýn, að umbreyta fjármálaþjónustu á Íslandi með gagnkvæman ávinning að leiðarljósi. Ávinning sem skilar sér til viðskiptavinarins og samfélagsins sem og hluthafa og starfsfólks. Þegar lagt er af stað í umbreytingaferli er nauðsynlegt að taka með gott veganesti. Það höfum við hjá Kviku gert og erum lögð af stað með einfaldleika, hugrekki og langtímahugsun sem gildi.
Fjártækni | að fjölga viðskiptavinum fjártæknilausna sem nota þrjár eða fleiri þjónustur um 50.000. |
Sjálfbærni | að hafa raunveruleg og mælanleg áhrif á kolefnisspor Íslands og á loftslagsmál almennt. |
Kvika Securities Ltd. | að afkoma starfsemi Kviku í Bretlandi verði að minnsta kosti 20% af afkomu samstæðunnar. |
Eignastýring | að vaxa í eignastýringu hraðar en eignastýringarmarkaðurinn á Íslandi, bæði í tekjum og eignum í stýringu. |
Vátryggingar | að vera arðsamasta tryggingarfélag landsins og auka markaðshlutdeild. |
Fjármögnun | að fjármögnunarkostnaður bankans verði sambærilegur og hjá íslensku viðskiptabönkunum. |
Ávöxtun á eigið fé | að ná 20% arðsemi efnislegs eigin fjár. |
Í lok árs 2022 samþykkti stjórn Kviku banka breytingar á skipulagi Kviku. Nýja skipulagið er aðlagað að stækkandi félagi sem leggur áherslu á að vera leiðandi í því að auka samkeppni og nýsköpun á fjármálamarkaði. Skipulagsbreytingarnar fela í sér að hluti af viðskiptabankasviði og fjárfestingarbankasvið munu mynda nýtt tekjusvið sem ber heitið fyrirtæki og markaðir og tekur það til starfa á árinu 2023.
Nýtt tekjusvið mun skerpa á sérstöðu Kviku í þjónustu við fyrirtæki og fjárfesta og auðvelda félaginu að nýta aukinn fjárhagslegan styrk til bættrar þjónustu við viðskiptavini. Styður skipulagið þannig vel við nýja stefnu Kviku. Eftir breytingarnar verða tvö tekjusvið rekin í Kviku banka, viðskiptabankasvið annars vegar og fyrirtæki og markaðir hins vegar. Því til viðbótar eru þrjú tekjusvið rekin í dótturfélögunum TM, Kviku eignastýringu og Kviku Securities í Bretlandi.
Á árinu urðu jafnframt þær breytingar á skipulaginu að dótturfélögin Aur og Netgíró sameinuðust Kviku banka og eru núna rekin sem vörumerki innan viðskiptabankasviðs. Þá gekk Kvika banki frá kaupum á innheimtufélaginu Skilaráðgjöf og og einnig hófst undirbúningur að starfsemi Straums, nýs dótturfélags Kviku á sviði greiðslumiðlunar.
Snemma árs 2022 var ráðist í ítarlega stefnumótunarvinnu á sviði sjálfbærni með starfsfólki og stjórnendum þvert á svið bankans og dótturfélaga. Útkoman var ný sjálfbærnistefna fyrir Kviku banka og samstæðuna í heild. Gildir hún á grundvelli eigendastefnu Kviku banka fyrir dótturfélög en stefnan kveður á um að sjálfbærni og samfélagsmál séu samræmd. Sjálfbærnistefnan var samþykkt af stjórn Kviku banka í nóvember 2022 og tekur hún við af samfélagsstefnu bankans.
Í stefnumótunarvinnunni var áhersla lögð á markmiðasetningu og skilgreiningu verkefna hjá tekjueiningum samstæðunnar innan fjögurra áherslusviða sem mynda lykilþemu stefnunnar:
Sem fjármálafyrirtæki getum við haft jákvæð áhrif á viðskiptaumhverfi okkar með auknum kröfum um UFS-áherslur hjá viðskiptavinum og samstarfsaðilum í gegnum lánveitingar, fjárfestingar og við val á birgjum.
Við hugum að UFS-þáttunum í vöruþróun og einbeitum okkur að nýjungum sem eru til þess fallnar að minnka kolefnisspor og einfalda og styrkja innviði fjármálaþjónustu.
Við leggjum áherslu á að miðla UFS-upplýsingum og fræðslu til viðskiptavina og starfsmanna í gegnum markaðsstarf, fjölmiðlaumræðu og námskeiðahald. Sem dæmi má nefna að virkja innri fræðslu og vera virk rödd um UFS.
Við stuðlum að fjölbreytni, aukinni vellíðan og starfsánægju starfsfólks og hvetjum til þátttöku þeirra í ýmsum samfélagsverkefnum.
Tekjueiningar Kviku eru komnar mislangt í innleiðingu sjálfbærni. Ný sjálfbærnistefna samstæðunnar mun auka samræmi og skapa betri heildarsýn fyrir málaflokkinn á samstæðugrunni. Stefnan mun einnig styðja við og efla menningu Kviku með sjálfbærni að leiðarljósi.
Með sjálfbærnistefnunni eru tekin upp sex heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem falla vel að áherslum Kviku:
Fleiri UFS-tengdar stefnur voru mótaðar á árinu, þar á meðal stefna um fræðslu og starfsþróun og fjarvinnustefna. Einnig voru stefnur sem snúa að sjálfbærnivinnu samstæðunnar uppfærðar, meðal annars til að taka mið af breytingum sem áttu sér stað í kjölfar samruna Kviku við TM og Lykil á árinu 2021. Þær eru: jafnréttisstefna, heilsustefna, mannauðsstefna, starfskjarastefna, og stefna og viðbragðsáætlun gegn einelti, áreitni og ofbeldi.
Samstæðan starfar að stærstum hluta á Íslandi, þar sem skýr lög og rammi er til staðar í mannréttindamálum, og hefur því ekki verið talin þörf á sérstakri mannréttindastefnu. Frekari upplýsingar um stefnur má finna á vef Kviku, www.kvika.is/sjalfbaerni.
Unnið verður áfram að innleiðingu sjálfbærnistefnunnar í starfsemina á nýju ári. Mikilvæg skref í þeirri vinnu eru að skilgreina mælanleg markmið og mælikvarða til lengri og skemmri tíma.
Snemma árs færðist málaflokkur sjálfbærni og um leið staða verkefnastjóra sjálfbærni frá sviði rekstrar og þróunar Kviku yfir á skrifstofu forstjóra og er málaflokknum áfram sinnt þar á samstæðugrunni. Einnig réð Kvika eignastýring í nýtt stöðugildi á sviði sjálfbærni til þess að sinna þeim fjölmörgu verkefnum sem snúa að sjálfbærni í sjóða- og eignastýringu.
Kvika leggur mikið upp úr því að innleiðing á sjálfbærni í starfsemina sé samræmd á milli eininga. Gott samtal um málaflokkinn á sér stað á fundum nefndar Kviku um samfélagsábyrgð og sjálfbærni (hér eftir „sjálfbærninefndin“) sem fundar mánaðarlega. Á árinu 2022 var nefndin skipuð forstjóra, verkefnastjóra sjálfbærni, forstöðumanni fjárstýringar, forstöðumanni fyrirtækjalána, forstöðumanni Lykils, mannauðsstjóra, forstöðumanni rekstrar Kviku Securities, forstöðumanni fjármála og rekstrar Kviku eignastýringar og fjármálastjóra TM.
Nefndin styður við eftirfylgni sjálfbærnistefnu Kviku, sem stjórn hefur samþykkt, og hefur eftirlit með þróun málaflokksins á samstæðugrunni. Á árinu stofnaði Kvika eignastýring jafnframt sjálfbærniráð sem fylgist með þróun málaflokksins út frá sjónarhorni eigna- og sjóðastýringar. Sjálfbærninefnd Kviku, framkvæmdastjórn bankans og samstæðu, endurskoðunarnefnd og stjórn fjalla um sjálfbærnimál og loftslagstengda áhættu á hverju starfsári.
Samhliða framsetningu á nýrri sjálfbærnistefnu Kviku á árinu fór fram mikilvægisgreining á áherslum í sjálfbærni í rekstri Kviku með hliðsjón af UFS-þáttunum. Með greiningunni og samtali við hagaðila var komið auga á lykiláherslur sem munu gagnast við innleiðingu sjálfbærnistefnunnar og mótun áherslna sem og við upplýsingagjöf.
Við framkvæmd greiningarinnar var tekið mið af leiðbeiningum í viðeigandi staðli GRI (GRI Standard 3 Material Topics1). Greiningin fól í sér eftirfarandi skref:
Greining á sjálfbærni (UFS-þáttum) út frá starfsemi Kviku. Einkum var horft til:
Rýndir voru efnisflokkar sem Kvika hefur eða getur haft áhrif á með tilliti til þeirra UFS-þátta sem telja má að séu mikilvægastir í starfsemi Kviku og fyrir helstu hagaðila. Kvika er enn ekki í stöðu til þess að mæla og meta vægi hvers þáttar fyrir sig og því er greiningin á þessu stigi huglæg. Þessi hluti greiningarinnar fól í sér eftirfarandi skref:
Svarhlutfall könnunarinnar var 24% á heildina. Í einstökum hópum hagaðila var mesta svörunin á meðal starfsfólks og stjórnarmanna eða 58%.
Með hliðsjón af þeim þáttum sem mikilvægisgreiningin leiddi í ljós staðfesti sjálfbærninefnd Kviku að lykiláherslur í sjálfbærni í starfseminni eru:
Stjórnarhættir / rekstur
Félagslegir þættir
Umhverfisþættir
Með stefnu um ábyrgar fjárfestingar hefur Kvika eignastýring einsett sér að tekið sé mið af umhverfislegum þáttum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum (UFS) við fjárfestingarákvarðanir. Á það við um allt fjárfestingarferlið, frá vali og mati á fjárfestingarkostum og reglulega yfir eignarhaldstímann. Þá er hugað að UFS-þáttunum í vöruþróun og nýjungum, sem stuðla að sjálfbærni, og einföldun og styrkingu innviða fjármálaþjónustu í samræmi við nýja sjálfbærnistefnu Kviku.
Þróun áherslna á sjálfbærni Kviku eignastýringar má rekja allt til ársins 2008 þegar fyrsti framtakssjóðurinn í rekstri félagsins, þar sem tekið er mið af UFS-þáttum í fjárfestingarferlinu, var stofnaður. Frá árinu 2017 hefur enn frekari þróun átt sér stað:
Helstu verkefni á árinu 2022 sem falla undir stefnu Kviku eignastýringar um ábyrgar fjárfestingar og áherslur sjálfbærnistefnunnar er undirbúningur UFS-miðaðra sjóða sem meðal annars stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda.
Þá var unnið áfram að þróun á UFS-flokkunaraðferð fyrir innlent eignasafn Kviku eignastýringar. Samhliða þróun á aðferðafræðinni var ráðið í nýtt stöðugildi á sviði sjálfbærni til þess að vinna að málaflokknum innan Kviku eignastýringar.
Komið var á fót sjálfbærniráði sem er vettvangur starfsfólks fyrir umræðu um mál er varða sjálfbærniáhættu og UFS í tengslum við vöruþróun. Sjálfbærniráðið annast einnig eftirlit og styður við verklag Kviku eignastýringar á sviði sjálfbærni.
Kvika eignastýring hóf vinnu við að reikna út fjármagnaða losun gróðurhúsalofttegunda með aðferðafræði PCAF (Partnership for Carbon Accounting Financials) á árinu. Horft hefur verið til eignasafns verðbréfasjóða og sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta, auk safna stofnanafjárfesta í eignastýringu, miðað við lok árs 2021. Þar á meðal eru fjárfestingar í skráðu hlutafé og skuldabréfum fyrirtækja og ríkisskuldabréfum. Haldið verður áfram með vinnuna á árinu 2023.
UFS-flokkunaraðferð Kviku eignastýringar byggir á atvinnugreinamiðuðu áhættumati sem félagið notar til að meta innlenda eignasafnið sitt, út frá því hversu útsettar eignir eru fyrir UFS-áhættuþáttum og hvaða aðgerðir þarf að ráðast í til að lágmarka sjálfbærnitengda áhættu.
Áhættumatið nýtist einnig í samtali við fjárfesta og fyrirtæki á markaði og við innleiðingu UFS-þátta í fjárfestingarferli Kviku eignastýringar. Aðferðafræði við framkvæmd áhættumatsins hefur verið skjalfest og er miðað við að ferlinu verði fylgt eftir til hlítar á nýju ári.
UFS-áhættumatið má nota til að meta íslenska útgefendur skráðra og óskráðra verðbréfa að undanskildum sveitarfélögum, ríki og rekstraraðilum sjóða. Sem stendur nær aðferðafræðin ekki til útgefenda erlendra verðbréfa en stefnt er að því að útvíkka gildissvið hennar á næstu misserum. Aðferðafræðin er í stöðugri þróun vegna aukins aðgengis að gögnum, breytinga í regluverki og umbótavinnu.
Þó svo að fyrirtæki birti í auknum mæli UFS-miðaðar upplýsingar eru fyrir hendi áskoranir sem tengjast öflun og mati á áreiðanleika slíkra upplýsinga. Búast má við því að gagnaaðgengi verði betra og upplýsingar verði á stöðluðu formi í auknum mæli samhliða gildistöku nýrra sjálfbærnimiðaðra löggjafa á Íslandi.
Kvika eignastýring rekur fjóra framtakssjóði sem fjárfesta í óskráðum fyrirtækjum til lengri tíma en þeir eru Auður I, Edda, Freyja og Iðunn.
Í gegnum framtakssjóðina er lögð áhersla á stuðning við stjórnendur félaga sem fjárfest er í. Það er gert með markvissum hætti til að bæta rekstur þeirra og árangur. Félögin eru hvött til að sýna samfélagslega ábyrgð, tileinka sér góða viðskipta- og stjórnarhætti, gæta að fjölbreytileika í stjórnun og huga að umhverfismálum.
Sjálfbærni og samfélagsleg ábyrgð er höfð til hliðsjónar í öllu fjárfestingarferli framtakssjóðanna, allt frá mati á fjárfestingarkostum yfir eignarhaldstímann og í undirbúningi á sölu fyrirtækjanna.
Fyrir fjárfestingu
Greining áhættu og tækifæra
Sem hluti af áreiðanleikakönnun, eru UFS-þættir skoðaðir sérstaklega sem og afstaða meðeigenda og stjórnenda til sjálfbærni og að starfað sé með samfélagslega ábyrgum hætti. Umfang UFS-áreiðanleikakönnunar er misjafnt eftir atvinnugreinum og aldri félaga.
Yfir eignarhaldstíma
Tækifæri til verðmætasköpunar
Kvika eignastýring beitir sér fyrir því að félög setji sér mælanleg UFS-markmið og að bætt sé úr þeim UFS-þáttum sem betur mega fara.
Við sölu
Öflugra félag við sölu
Við sölu er markmiðið að félögin séu öflugri en fyrir fjárfestingu og að þau leggi aukna áherslu á ábyrga og sjálfbæra starfsemi.
Markvisst er haldið utan um lykilupplýsingar varðandi sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð fyrirtækja í eignasafninu hverju sinni. Framtakssjóðasvið Kviku eignastýringar birtir reglulega sjálfbærniupplýsingar til hagaðila í formi UFS-skýrslu og í umfjöllun í ársskýrslu einstakra sjóða.
TM hefur fylgt eftir stefnu um samfélagslega ábyrgð um árabil og hugað að sjálfbærni í rekstri félagsins. Markmið voru fyrst sett í þeim efnum þegar skrifað var undir yfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar um loftslagsmál árið 2015 er TM hóf að mæla kolefnisspor starfseminnar. Félagið hefur reglubundið gert skil á árangri í þáttum sem snúa að sjálfbærni og eftir sameininguna við Kviku banka árið 2021 var ákveðið að vinna þessar mælingar á samstæðugrunni. Samstæðan er nú öll flutt í sama húsnæði og hefur verulegum hluta rekstrardeildar TM verið útvistað til Kviku banka.
Árið 2022 sótti TM um aðild að PSI (Principles for Sustainable Insurance) sem er sjálfbærnirammi á vegum Sameinuðu þjóðanna fyrir vátryggingastarfsemi. Um er að ræða grunngildi sem TM undirgengst og lúta að því að innleiða sjálfbærni í starfsemina og vinna með viðskiptavinum og birgjum að umbótum á því sviði.
Sem tryggingafélag er starfsfólk TM mjög meðvitað um þá þróun sem hefur orðið í veðurtengdum atburðum og aukið umfang þeirra hvað varðar tíðni og alvarleika á undanförnum árum. Þetta hefur meðal annars leitt til þess að endurtryggingamarkaðir hafa harðnað, sérstaklega varðandi eignatryggingar.
Mikilvægi sjálfbærni eykst jafnt og þétt og stefna stjórnendur TM markvisst að því að sjálfbærni verði samofin allri starfsemi félagsins. Aðeins þannig næst raunverulegur árangur til aukinnar sjálfbærni. Starfsfólk TM tók þátt í stefnumótun Kviku um sjálfbærni á árinu og markaði þar verkefni og markmið til að vinna að undir lykilþemum nýrrar sjálfbærnistefnu Kviku.
TM hefur sett sér stefnu um ábyrgt vöru- og þjónustuframboð í samræmi við áherslur Kviku. Lögð hefur verið áhersla á þróun á stafrænni þjónustu á undanförnum árum þannig að viðskiptavinir geta leitað tilboða og keypt tryggingar með sjálfvirkum hætti. Sem dæmi um ábyrgt vöruframboð má nefna rafhjólatryggingu TM og netöryggistryggingu. Forvarnir fyrirtækja eru mikilvægar í starfi TM og með því að sinna þeim af kostgæfni hefur verið stuðlað að fækkun slysa, sérstaklega í sjávarútvegi.
Í sjálfbærnivinnu TM er lögð áhersla á að innleiða UFS-áhættumat í viðskiptum við fyrirtæki sem hafa 50 starfsmenn eða fleiri. Stefnt er að meta alla viðskiptavini sem falla undir þessi viðmið á næsta ári og verður það markmið útfært samhliða vinnu samstæðunnar við mótun á UFS-áhættustefnu á nýju ári.
TM hefur lagt sig fram um að vekja athygli viðskiptavina á sjálfbærnimálum, meðal annars með því að vera stuðningsaðili Arctic Circle. Einnig hefur félagið allt frá 2010 veitt árlega viðurkenningu fyrir nýsköpun með Sviföldunni á Sjávarútvegsráðstefnunni. Á árinu 2022 fékk fyrirtækið SideWind verðlaunin fyrir að þróa vindtúrbínur sem ætlað er að draga úr olíunotkun gámaflutningaskipa.
Fjárfestingar eru mikilvægur þáttur í starfsemi TM og annað megintekjusvið félagsins. Áhersla á ábyrgar fjárfestingar hefur aukist innan félagsins en TM er einn af stofnaðilum IcelandSIF, samtaka um ábyrgar fjárfestingar. Á árinu var lagt á mat á UFS-áhættu fjárfestingarsafns TM og hefur um 60% safnsins verið flokkað, en UFS-áhættumat Kviku eignastýringar er notað í þeirri vinnu. Það gefur félaginu betri mynd af sjálfbærniáhættu fjárfestingarsafnsins.
Á árinu 2022 lauk félagið við útreikning með aðferðafræði PCAF á fjármagnaðri losun gróðurhúsalofttegunda frá fjárfestingarsafni sínu miðað við lok árs 2021, en TM er fyrst íslenskra tryggingafélaga til að birta upplýsingar um fjármagnaða losun frá fjárfestingarsafni sínu. Fjallað er nánar um þær niðurstöður í kafla um PCAF í skýrslunni.
Markmið tjónaþjónustu um meðhöndlun tjónaúrgangs lúta að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með markvissum aðgerðum. Mikilvægt er að förgun tjónamuna og meðhöndlun úrgangs sé í samræmi við markmið í umhverfis- og samfélagsmálum TM og samstæðunnar.
TM hefur sett sér markmið um að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif af tjónaúrgangi og ná utan um losun gróðurhúsalofttegunda (umfang 3 samkvæmt Greenhouse Gas Protocol) vegna tjónaúrgangs. TM hefur í áratugi unnið að endurnýtingu tjónamuna en fyrirhugað er að setja sérstök ákvæði um ábyrga tjónaförgun í samninga við þá aðila sem fyrir hönd félagsins sjá um viðgerðir og frágang úrgangs eftir tjónsatburði.
Í samræmi við áherslur nýrrar sjálfbærnistefnu samstæðunnar um sjálfbært viðskiptaumhverfi hófst vinna á árinu 2022 við að senda út áhættumat eða könnun til allra samstarfsaðila í ökutækjatjónum og fasteignatjónum. Með könnuninni er stefnt að því að fá betri yfirsýn yfir stöðu sjálfbærniþátta hjá þeim aðilum sem koma að úrvinnslu mála í ökutækja- og fasteignatjónum. Þá er tjónaþjónustan einnig smám saman að vinna að því að uppfæra samninga við samstarfsaðila með skýrari ákvæðum og kröfum að því er varðar sjálfbærni og umhverfismál þegar kemur að tjónaafgreiðslu. Stefnt er að því að lokið verði við að senda út könnun á alla samstarfsaðila í lok árs 2023.
Tjónaþjónusta TM fyrirhugar einnig að skoða frekari valkosti varðandi áherslur í sjálfbærni, meðal annars varðandi samvinnu við aðila í úrvinnslu tjóna og markvissari öryggis- og umhverfisfræðslu til viðskiptavina við tjónauppgjör. Þar eru margir snertifletir sem skapa tækifæri til upplýsingamiðlunar og forvarna. Einnig má skoða frekari samvinnu við yfirvöld þar sem það á við, til dæmis í stórtjónum, skipatjónum og brunatjónum, en þar reynir á samvinnu TM við fjölmarga hagsmunaaðila.
Þar að auki hefur heimsóknum viðskiptavina til TM fækkað verulega undanfarið með sjálfvirkri tjóna-afgreiðslu, en áhersla hefur verið lögð á sjálfvirknivæðingu hjá TM og einföldun ferla.Z
Sjálfvirknivæðing og stafrænar lausnir geta dregið úr umhverfisáhrifum og losun gróðurhúsalofttegunda með minni bílaumferð og pappírsnotkun. Við hjá Kviku vitum að þróun á nýrri þjónustu í fjártækni og sjálfvirknivæðing ferla þar sem úrvinnsla og afgreiðsla er svo til öll stafræn er mikilvægt skref á þessari vegferð.
Í fjártækni felst að stafræn tækni, upplýsingatækni og sjálfvirknivæðing ferla og þjónustu er nýtt til þess að þróa nýjar lausnir og nálganir í fjármálaþjónustu og til að einfalda og bæta þá fjármálaþjónustu sem er til staðar. Með nýjum lausnum og nálgun er leitast við að auka öryggi og spara tíma viðskiptavinarins og starfsfólks og draga um leið úr neikvæðum áhrifum á umhverfið.
Kvika og Creditinfo undirrituðu samstarfssamning varðandi þróun á Veru, sjálfbærnilausn Creditinfo, á árinu. Við þróun lausnarinnar veitti Kvika sérfræðiálit á mörgum þáttum Veru og hvernig hægt er að hagnýta hana á mismunandi sviðum innan Kviku.
Sjálfbærni nær inn á öll svið fjármálafyrirtækja og er grunnur heilbrigðs rekstrar. Vera er sérhannaður gagnagrunnur og nýtist meðal annars fjármálafyrirtækjum þar sem lausnin veitir viðeigandi sjálfbærniupplýsingar sem nýtast í vinnu áhættustýringar, eignastýringar og/eða í útlánastarfsemi.
Kvika gerðist aðili að PCAF á árinu og voru gögn, meðal annars úr Veru, ásamt sérfræðiþekkingu af hálfu Creditinfo nýtt til að reikna fjármagnaða losun gróðurhúsalofttegunda með aðferðafræði PCAF fyrir viðskiptabankasvið Kviku og fyrirtækjalán, sem og fjárfestingar TM. Sú vinna var mikilvæg fyrir báða aðila samstarfsins þar sem Kvika þekkir nú betur fjármagnaða losun frá útlánum og fjárfestingum og Creditinfo fékk jákvæða staðfestingu á gæðum gagna í Veru. Á árinu hófst einnig vinna við að reikna út fjármagnaða losun frá sjóðum Kviku eignastýringar og verður áframhald á þeirri vinnu á árinu 2023.
Rík áhersla hefur verið á þróun fjártæknilausna hjá Kviku banka frá 2019 þegar farið var af stað með stafræna innlánsreikninga Auðar. Afmörkuð stafræn þjónusta Auðar og góð nýting innviða hefur gert Kviku kleift að bjóða upp á hærri vexti sem skilar sér til neytenda. Aðrar fjártæknilausnir Kviku banka eru Aur og Netgíró sem bjóða upp á stafrænar greiðslulausnir og einstaklingslán. Ötullega hefur verið unnið að stafrænni þróun á ferlum og þjónustu Lykils, sem í sumum tilfellum er að fullu stafræn. Þar að auki hefur TM verið brautryðjandi í stafrænum lausnum á íslenskum tryggingamarkaði.
Áfram er hugað vel að tækifærum á sviði fjártækni og aukinni sjálfvirknivæðingu ferla hjá samstæðunni. Sem dæmi um verkefni sem voru unnin á árinu má nefna útgáfu appsins Kvika verðbréf sem gefur viðskiptavinum Kviku banka og Kviku eignastýringar góða yfirsýn yfir verðbréfasöfn með einföldum hætti. Pöntunarkerfi Kviku eignastýringar í sjóðum og móttaka viðskiptavina í eignastýringu voru einnig í auknum mæli sjálfvirknivædd til hagræðingar fyrir viðskiptavini og starfsfólk. Þar að auki var hjá TM meðal annars unnið að lausn sem nefnist Bót og gerir viðskiptavinum, starfsfólki og verktökum kleift að fylgjast með og skrá rafrænt framgöngu tjónamála.
Jákvæð umhverfisleg áhrif stafrænnar þróunar eru óumdeild þegar horft er til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda tengt minni bílaumferð og pappírsnotkun sem tæknin leysir af hólmi. Horfa þarf þó einnig til þess að orkuþörf eykst samhliða stafrænni þróun enda eru tæknilausnir orkufrekar. Umhverfisáhrif í starfsemi hýsingaraðila eru eitt af þeim sjónarmiðum sem horft er til hjá Kviku við val á hýsingaraðilum gagna og kerfa. Öll gagnaver sem Kvika er í viðskiptum við á Íslandi nýta endurnýjanlega orkugjafa að mestu leyti í starfsemi sinni. Enn fremur nýtur Kvika þjónustu skýjahýsingaraðilanna Amazon og Microsoft í Evrópu sem bæði nýta sólar- og vindorku meðal orkugjafa og hafa sett sér markmið um kolefnishlutleysi í náinni framtíð.
Starfsfólkið er okkur afar mikilvægt því þekking þess og færni hefur fært Kviku á þann stað sem félagið er í dag. Á árinu fjölgaði starfsfólki samstæðunnar nokkuð en í árslok 2022 störfuðu 386 hjá samstæðunni og þá er talin með starfsemin í Bretlandi. Starfsemi samstæðunnar á Íslandi var sameinuð undir einu þaki á árinu og hefur gengið vel að samþætta hana. Markvisst var unnið að því á árinu að starfsfólk kynnist og þekkti betur starfsemi ólíkra eininga innan samstæðunnar, meðal annars með kynningum í matsal, viðburðum af ýmsu tagi og skipulögðum heimsóknum á milli deilda.
Hér má sjá yfirlit yfir starfsfólk Kviku, brotið niður eftir stærstu félögum, þar með talið í Bretlandi, með tilliti til aldurs, kyns og stöðu:
Starfsmannavelta hjá samstæðunni á árinu 2022 nam 9,3% sem er örlítið lægra hlutfall en árið á undan (11,5%).
Við leggjum upp úr því að skapa jákvætt og öruggt starfsumhverfi þar sem allir hafa sömu tækifæri. Við höfum markað okkur mannauðs-, jafnréttis- og heilsustefnur sem leggja grunn að aðgerðaáætlun sem unnið er eftir og endurskoðuð er árlega. Kvika banki og TM hafa fengið vottun á jafnlaunakerfi samkvæmt kröfum staðalsins ÍST 85:2012. Þá fór Kvika eignastýring í gegnum úttekt á jafnlaunakerfi í árslok 2022 og er formleg vottun væntanleg á fyrsta ársfjórðungi ársins 2023.
Góð heilsa er forsenda velgengni okkar í starfi sem og á öðrum sviðum lífsins. Til að stuðla að betri heilsu og líðan starfsfólks veitum við líkamsræktar- og samgöngustyrki og bjóðum starfsfólki upp á nauðsynlegar bólusetningar og heilsufarsskoðanir á vinnustaðnum árlega. Þá hafa verið haldnar heilsuvikur þar sem boðið er upp á fræðsluerindi og ýmiss konar hreyfingu og hvatningu til starfsfólks um að huga að heilsunni. Að auki er boðið upp á hollan og næringarríkan morgun- og hádegisverð alla daga og hollt millimál er aðgengilegt öllu starfsfólki.
Fjölmörg námskeið og önnur fræðsla stendur starfsfólki til boða, bæði valkvætt efni og skylduefni, sem eykur þekkingu þess á starfseminni og eflir færni. Í flestum tilfellum fer miðlun efnisins fram stafrænt í gegnum fræðslukerfið Eloomi þar sem einnig er haldið utan um ástundun starfsfólks í fræðslu. Að auki eru námskeið og styttri erindi haldin í húsakynnum okkar. Að meðaltali fór hver starfsmaður Kviku á 21 stafrænt námskeið á árinu 2022.
Þeim ráðstöfunum sem gripið var til við upphaf COVID-19-faraldursins var fylgt inn á fyrsta ársfjórðung ársins 2022 til samræmis við tilmæli yfirvalda og aðstæður á hverjum tíma. Sérstök nefnd fylgdist með þróun mála og gætti að öryggi starfsfólks með viðeigandi ráðstöfunum.
Áframhald var á fjarvinnu hjá meirihluta starfsfólks í gegnum faraldurinn og var fjarfundarbúnaður nýttur til samskipta og funda. Fjarvinna hefur áfram verið í boði fyrir þá sem það kjósa í takt við fjarvinnustefnu sem innleidd var á árinu. Með henni er stuðlað að auknum sveigjanleika hjá starfsfólki þar sem því er viðkomið og dregur það samhliða úr umhverfismengun með færri ferðum starfsfólks í akstri til og frá vinnu.
Til að fá sem besta mynd af líðan starfsfólks og viðhorfi til vinnustaðar og stjórnunar er árlega framkvæmd viðhorfskönnun þar sem könnuð er meðal annars helgun í starfi, starfsánægja, streita, viðhorf til jafnréttismála og jafnvægis milli vinnu og einkalífs. Þá er einnig spurt um starfstengt einelti, áreitni eða ofbeldi. Í kjölfar slíkra kannana er rýnt í niðurstöður og sett upp aðgerðaáætlun eins og við á hverju sinni.
Könnunin fyrir árið 2022 sýndi að starfsánægja er mikil, mældist 4,38 að meðaltali af 5 mögulegum og helgun starfsfólks var 4,09 að meðaltali á sama kvarða. Könnunin leiddi í ljós að starfsfólk Kviku upplifir jafnframt góðan starfsanda og samstarf og er stolt af því að starfa hjá félaginu. Vinnustaðagreining veitir einnig upplýsingar um tækifæri til umbóta og færir okkur aukinn skilning á því hvernig við getum byggt upp styðjandi og hvetjandi starfsumhverfi. Þá færir greiningin okkur innsýn í þann mun sem kann að vera á viðhorfum eða upplifun starfsfólks milli ólíkra eininga. Niðurstöður greiningarinnar bentu til þess að persónuleg endurgjöf mætti vera meiri af hálfu stjórnenda. Hefur því meðal annars verið fylgt eftir með hvatningu um fleiri regluleg starfsmannasamtöl og þjálfun stjórnenda í því að veita endurgjöf.
Kvika hefur innleitt siðareglur fyrir birgja og framkvæmir birgjamat á mikilvægustu birgjum sínum en við skilgreiningu á þeim hefur verið horft til sjónarmiða í útvistunarstefnu Kviku þar sem mikilvægir útvistunaraðilar eru skilgreindir í samræmi við lög og reglur þar að lútandi fyrir eftirlitsskylda aðila.
Siðareglurnar snúa að því að setja viðmið um að birgjar bankans taki mið af UFS-þáttum í starfsemi sinni. Kröfur eru settar á þá birgja sem skilgreindir eru sem mikilvægir. Þeim er ætlað að staðfesta siðareglurnar og gera grein fyrir því hvernig unnið er með sjálfbærni og UFS-þætti í starfseminni en spurt er út í þá þætti í birgjamati. Í lok árs 2022 höfðu sjö af níu birgjum sem skilgreindir eru sem mikilvægir staðfest reglurnar.
Miðað er við að sem flestir aðrir birgjar fái siðareglurnar sendar en fyrir þá er það valkvætt hvort þeir staðfesta þær eða ekki. Siðareglurnar eru einnig aðgengilegar á vef Kviku. Rekstrardeild Kviku hefur eftirlit með þessum málaflokki.
Gera má ráð fyrir að á árinu 2023 verði ferlið yfirfarið og bætt til samræmis við áherslur í nýrri sjálfbærnistefnu samstæðunnar sem leggur áherslu á að Kvika sem fjármálafyrirtæki hafi jákvæð áhrif á viðskiptaumhverfi sitt með auknum kröfum um UFS hjá samstarfsaðilum, þar á meðal við val á birgjum.
Eitt af leiðarljósum í stefnu Kviku er að Kvika sýni ábyrga þátttöku í samfélaginu með áherslu á langtímahugsun. Við leggjum meðal annars áherslu á að hafa jákvæð áhrif á uppbyggingu og virkni fjármálamarkaða og styðjum við nýsköpun.
Kvika leggur áherslu á að bjóða upp á fjölbreytta fjárfestingarkosti og tekur bankinn virkan þátt í umræðu um þróun fjármálamarkaðsins, meðal annars í gegnum IcelandSIF, samtaka um ábyrgar fjárfestingar, en Kvika er stofnaðili samtakanna, og hjá Festu – miðstöðvar um sjálfbærni.
Eitt af stefnumiðum Kviku er að auka samkeppni á fjármálamarkaði. Með hliðsjón af því hefur verið ánægjulegt að fylgjast með þróun á markaði með innlánsreikninga í kjölfarið á stofnun innlánsreikninga Auðar árið 2019. Með þjónustu alfarið á netinu og lágmarksyfirbyggingu nær Auður að halda kostnaði í lágmarki og þannig skapa svigrúm til að bjóða viðskiptavinum upp á betri innlánskjör, með og án binditíma. Hefur það leitt af sér jákvæð áhrif á samkeppni og þar með auknar vaxtatekjur til heimilanna.
Kvika er að hefja samstarf við SoGreen sem er íslenskt sprotafyrirtæki um framleiðslu nýrrar tegundar kolefniseininga á heimsvísu. Kvika styrkti SoGreen á árinu 2022 í gegnum FrumkvöðlaAuði sem er sjóður Kviku banka.
Kolefniseiningarnar verða framleiddar með því að tryggja stúlkum í lágtekjuríkjum menntun. Rannsóknir hafa sýnt fram á að menntun stúlkna er meðal áhrifaríkustu loftslagslausna heims.2 Fyrsta verkefni SoGreen hefst í Sambíu í byrjun árs 2023 og mun tryggja fimm ára gagnfræðiskólamenntun fyrir allt að 200 stúlkur og lýkur verkefninu í lok árs 2027. Fyrir hvert forðað tonn CO2-ígilda framleiðir SoGreen eina kolefniseiningu. Með verkefninu er áætlað að framleiða um 14.720 kolefniseiningar og er áætluð forðun verkefnisins 14.720 tonn CO2-ígilda.
Kolefniseiningarnar eru seldar fyrir fram til að fjármagna verkefnið og verður Kvika eitt af fyrstu íslensku fyrirtækjunum til að kaupa einingar. SoGreen vinnur að því að fá einingarnar vottaðar í samræmi við kröfur tækniforskriftar ÍST TS 92:2022 sem Staðlaráð Íslands gaf út á síðasta ári.
Kvika styrkir á hverju ári ýmis málefni sem hafa jákvæð áhrif á samfélagið og hefur áhersla verið lögð á menntamál og uppbyggingu fjármálamarkaða. Á árinu 2022 var ný styrktarstefna mótuð fyrir Kviku til að tryggja samræmt verklag við styrkveitingar og til að tryggja að áherslur í styrktarmálum séu í samræmi við markmið sjálfbærnistefnu Kviku. Nýja styrktarstefnan tekur mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna eins og sjálfbærnistefnan.
Meðal markmiða stefnunnar er fjölbreytni í hópi viðtakenda styrkja og að koma í veg fyrir óeðlilega samþjöppun á styrkjum til einstakra aðila og fyrirtækja. Stefnan leggur áherslu á jafnrétti kynja en Kvika styður sérstaklega við konur með úthlutunum úr sjóðnum FrumkvöðlaAuði.
FrumkvöðlaAuður
FrumkvöðlaAuður er sjálfseignarstofnun sem var stofnuð af Auði Capital árið 2009. Í upphafi hét stofnunin AlheimsAuður og er markmið hennar að vera góðgerðarsjóður með það að meginstefnu að hvetja konur til athafna og frumkvæðis, einkum í þróunarlöndum. Sjóðurinn hefur í seinni tíð einnig litið nær sér í styrkveitingum með áherslu á frumkvöðlastarf kvenna. Auk SoGreen fengu eftirfarandi verkefni úthlutanir árið 2022:
Einnig er hvatningarsjóður til staðar hjá Kviku fyrir umsækjendur í iðn- og kennaranámi sem hefur það markmið að efla umræðu og vitund um mikilvægi iðn- og kennaranáms og þýðingu þess fyrir íslenskt atvinnulíf.
Kvika hefur verið aðalsamstarfsaðili UNICEF á Íslandi á sviði bankaþjónustu frá árinu 2011 og er einnig sérstakur velunnari Heimsforeldra. Meðal annarra styrkja á árinu 2022 má nefna styrki til eftirfarandi málefna:
Heildarupphæð styrkja innan samstæðunnar á árinu nam 86.965.000 kr.
Kvika styður markmið íslenskra stjórnvalda um kolefnishlutleysi árið 2040. Eitt af leiðarljósum stefnu Kviku er að vera ábyrgur þátttakandi í samfélaginu og hefur samstæðan sett sér markmið um að stuðla að samdrætti í losun kolefnis og hafa raunveruleg og mælanleg áhrif á kolefnisspor Íslands og loftslagsmál almennt.
Sjálfbærnistefna Kviku útfærir nánar áherslur samstæðunnar. Þar kemur meðal annars fram að Kvika hugi að sjálfbærni í vöruþróun og nýsköpun og einbeiti sér að nýjungum sem eru til þess fallnar að minnka kolefnisspor og styrkja innviði fjármálaþjónustu. Einnig að samstæðan beiti sér fyrir því að hafa jákvæð áhrif á viðskiptaumhverfi sitt með auknum kröfum um áherslur um UFS-þættina hjá viðskiptavinum og samstarfaðilum. Kvika leggur áherslu á að lágmarka þau neikvæðu umhverfisáhrif sem reksturinn kann að hafa og gerir umhverfis- og samgöngustefna Kviku skil á helstu þáttum sem teknir eru til skoðunar í því samhengi.
Unnið hefur verið að því að ná utan um kolefnisspor starfseminnar frá árinu 2020 fyrir Kviku banka og Kviku eignastýringu en TM hóf slíkar mælingar árið 2015. Haldið er utan um umhverfisáhrif eigin rekstrar með stafrænu umhverfisstjórnunarkerfi og er umhverfisbókhaldið sameiginlegt fyrir íslenska starfsemi Kviku. Á árinu lauk Kvika við að mæla fjármagnaða losun gróðurhúsalofttegunda samkvæmt aðferðafræði PCAF fyrir ákveðna eignaflokka.
Kvika hefur að svo búnu hvorki sett sér töluleg markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda né markmið byggð á vísindalegum grunni en stefnir á að móta slík markmið samhliða vinnu við innleiðingu sjálfbærnistefnunnar í starfsemina á nýju ári og auknum skilningi á umhverfisáhrifum starfseminnar.
Mæld heildarlosun samstæðunnar í umfangi 1, 2 og 3 hefur aukist sé horft þrjú ár aftur í tímann samhliða auknum umsvifum í í kjölfar samruna Kviku banka við TM og Lykil árið 2021, en þá bættust við nýjar rekstrareiningar í umhverfisbókhald samstæðunnar.
Á árinu 2021 hóf Kvika jafnframt mælingar á losun vegna úrgangs og samganga starfsmanna. Í maí 2022 fluttist starfsemin öll í sama húsnæði. Sama ár lauk Kvika í fyrsta sinn við mælingar á fjármagnaðri losun samstæðunnar í tilteknum eignaflokkum, miðað við lok árs 2021, samkvæmt aðferðafræði PCAF eins og fjallað er nánar um í PCAF-kafla skýrslu þessarar.
Umhverfisvísar Kviku fyrir árin 2020 til 2022 mótast af áhrifum COVID-19 faraldursins og þeirra aðgerða sem gripið var til í rekstrinum í samræmi við tilmæli yfirvalda. Vegna færri flugferða og minni aksturs starfsfólks til og frá vinnustað var samdráttur í losun þangað til febrúar 2022 þegar yfirvöld afléttu sóttvarnaraðgerðum.
Ráðist var í ýmsar aðgerðir á árinu til að stuðla að lágmörkun á neikvæðum umhverfisáhrifum. Fræðsla til starfsfólks um sjálfbærni var aukin. Jafnframt var fjarvinnustefna tekin í gagnið sem er meðal annars ætlað að stuðla að minni umhverfisáhrifum með færri ferðum starfsfólks til og frá vinnustað. Kvika hvetur starfsfólk einnig áfram til að fjölga fjarfundum og fækka þannig ferðum í bíl og að nýta sér vistvæna ferðamáta með veitingu samgöngustyrks og á grundvelli samstarfssamnings við Strætó.
Jákvæða þróun má sjá milli ára í orkukræfni en orkunotkun á starfsmann hefur lækkað um u.þ.b. 16% á bilinu 2020–2022. Einnig hefur heildarmagn úrgangs lækkað á árinu 2022 miðað við 2021. Losunarkræfni starfsmanna var svipuð milli ára 2021 og 2022. Nánari upplýsingar um helstu umhverfisvísa má finna í eftirfarandi töflum og einnig í tilvísunartöflu skýrslunnar.
Losun gróðurhúsalofttegunda | 2020 | 2021 | 2022 | UFS-vísar |
---|---|---|---|---|
Umfang 1 (tonn CO2-ígilda) | 11,1 | 28,5 | 33,2 | E1 (1) |
Umfang 2 (tonn CO2-ígilda) | 11,0 | 23,7 | 24,5 | E1 (2) |
Umfang 3 (tonn CO2-ígilda) | 3,4 | 160,1 | 196,1 | E1 (3) |
Losunarkræfni starfsmanna (kg CO2-ígildi/stöðugildi) | 187,6 | 671,5 | 706,8 | E2 |
Orkunotkun | 2020 | 2021 | 2022 | UFS-vísar |
---|---|---|---|---|
Heildarmagn beinnar orkunotkunar (kWst) | 43.792 | 115.115 | 133.197 | E3 (1) |
Heildarmagn óbeinnar orkunotkunar (kWst) | 1.223.090 | 2.566.030 | 2.686.765 | E3 (2) |
Orkukræfni: heildarorkunotkun (kWst) miðað við stöðugildi | 9.315 | 8.479,3 | 7.855 | E4 |
Samsetning orku | 2020 | 2021 | 2022 | UFS-vísar |
---|---|---|---|---|
Jarðefnaeldsneyti | 3,5% | 4,3% | 4,7% | E5 |
Endurnýjanlegir orkugjafar | 96,5% | 95,7% | 95,3% | E5 |
Meðhöndlun úrgangs | 2020 | 2021 | 2022 | UFS-vísar |
---|---|---|---|---|
Heildarmagn úrgangs (kg) | - | 29.253 | 23.471 | |
Flokkunarhlutfall úrgangs (%) | - | 72,9% | 73,1% | |
Endurvinnsluhlutfall úrgangs (%) | - | 72,9% | 75,1% |
Vatnsnotkun | 2020 | 2021 | 2022 | UFS-vísar |
---|---|---|---|---|
Heildarvatnsnotkun (m3) | 35.146 | 54.111 | 59.729 | E6 (1) |
Kalt vatn (m3) | 17.405 | 20.025 | 21.792 | |
Heitt vatn (m3) | 17.741 | 34.085 | 37.937 |
Í samræmi við stefnumið Kviku er leitast við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfseminni. Auk þess hefur Kvika kolefnisjafnað mælda losun sem átti sér stað á árinu 2022 en heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í umfangi 1, 2 og 3 á árinu 2022 nam 253,8 tonnum CO2-ígilda. Með það að markmiði að kolefnisjafna losunina festi Kvika kaup á 255 tonnum CO2-ígilda af vottuðum kolefniseiningum frá bandaríska félaginu Aspiration. Aspiration hefur um árabil unnið að loftslags-verkefnum, sem skila hágæða kolefniseiningum og áþreifanlegum umhverfis- og samfélagsáhrifum, þar sem þau eru staðsett.
Kolefniseiningarnar sem Kvika festi kaup á munu nýtast í fjármögnun þriggja verkefna sem öll eru flokkuð sem REDD+ verkefni. Þau snúa að aðgerðum gegn loftslagsbreytingum með áherslu á sjálfbæra landnýtingu og varnir gegn eyðingu skóga í þróunarlöndum.
Lýsing á verkefnunum þremur fylgir, en þau styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal heimsmarkmið 4 um menntun fyrir alla, heimsmarkmið 5 um jafnrétti kynjanna, heimsmarkmið 13 um aðgerðir í loftslagsmálum og heimsmarkmið 17 um samvinnu um markmiðin, sem eru meðal markmiða sem Kvika styður sérstaklega. Verkefnin eru vottuð samkvæmt Verified Carbon og Community and Bio-diversity stöðlunum.
Verkefnið verndar um 250.000 hektara af skóglendi gegn ólöglegu skógarhöggi og ósjálfbærum landbúnaði. Skógurinn hýsir simpansa, bónóbóa, skógarfíla og votlendi sem er meðal mikilvægasta votlendis heims. Á svæðinu búa um 180.000 manns. Verkefnið er hið fyrsta sinnar tegundar á vatnasvæði Kongó og er áætlað að verkefnið í heild komi í veg fyrir losun 175 milljón tonna CO2-ígilda yfir 30 ára tímabil. Meðal annarra jákvæðra áhrifa verkefnisins er stuðningur við menntun og atvinnu á svæðinu, verndun líffræðilegs fjölbreytileika og aukin heilbrigðisþjónusta.
Verkefnið snýr að verndun 1,3 milljóna hektara þjóðgarðs í miðju Perú. Meðal ávinninga er vernd gegn eyðingu skóga og samvinna við samfélög og aðra hagaðila um notkun og stjórnun lands með náttúruvernd að leiðarljósi. Svæðið hýsir 6.000 tegundir plantna og yfir 800 spendýr, fiska og fuglategundir, þar af 39 tegundir í útrýmingarhættu. Verkefnið hefur jákvæð áhrif á 35 nærliggjandi samfélög og styður meðal annars við skólavist fyrir um 5.000 nemendur. Einnig stuðlar það að atvinnusköpun, en 688 störf hafa verið sett á laggirnar með verkefninu og þar af 39% skipuð konum.
Verkefnið verndar mikilvægt votlendi í Indónesíu sem hýsir dýrategundir í útrýmingarhættu en votlendið bindur einnig gríðar mikið magn af kolefni. Verkefnið kemur í veg fyrir losun um 500 milljón tonna CO2-ígilda. Verkefnið skapar störf fyrir yfir 500 manns. Áhersla er lögð á þjálfun almennings í verndun lands og skógar en 34 þorpsbúar taka beinan þátt í ákvarðanatöku tengdri verkefninu.
Kvika gerðist aðili að PCAF árið 2022. Sama ár hóf Kvika samstarf við Creditinfo um að reikna út fjármagnaða óbeina losun gróðurhúsalofttegunda (umfang 3) af útlánum og fjárfestingum fyrir viðskiptabankasvið og fyrirtækjalán Kviku, sem og fjárfestingar TM samkvæmt aðferðafræði PCAF. Niðurstöður miða við stöðu losunar í lok árs 2021 og tekur losun mið af skráðum hlutabréfum og skuldabréfum fyrirtækja, ríkisskuldabréfum, fyrirtækjalánum og óskráðu hlutafé, bílalánum og húsnæðislánum. Vinna hófst einnig við að reikna út fjármagnaða losun eignasafna Kviku eignastýringar og heldur sú vinna áfram á árinu 2023.
Fjármögnuð losun
Losun gróðurhúsalofttegunda frá rekstri fyrirtækja flokkast sem bein og óbein. Aðferðarfræði við að greina beina og óbeina losun felur í sér flokkun í umföng 1, 2 og 3. Umfang 1 er bein losun á ábyrgð félags frá rekstri, svo sem eldsneytisnotkun farartækja. Umfang 2 er óbein losun vegna framleiðslu á raforku eða hita, svo sem vegna reksturs húsnæðis. Umfang 3 er óbein losun vegna framleiðslu á aðföngum sem berast félagi eða vegna notkunar á seldum vörum. Fjárfestingar og lán falla undir umfang 3 og leysir PCAF aðferðarfræðin nálgun fjármálafyrirtækja á það hvernig fjármögnuð losun er reiknuð út af lánum og/eða fjárfestingum.
Lykilatriði aðferðafræði PCAF er svokallað losunarhlutfall (e. attribution factor) sem gefur til kynna hversu mikið af losun fyrirtækja í eignasafni reiknast sem óbein eða fjármögnuð losun fjármálafyrirtækis en losunarhlutfallið er reiknað á mismunandi máta eftir eignaflokkum. Þegar fyrirtæki gefa ekki upp losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi sinni er mögulegt að áætla losun og er þá stuðst við gögn sem standa hvað næst starfsemi fyrirtækjanna sem um ræðir. Kvika studdist í þeim tilvikum við gögn úr Veru, sjálfbærnilausn Creditinfo.
Niðurstöður gefa til kynna að losun sé mest frá bílalánum, næstmest frá fyrirtækjalánum og loks húsnæðislánum. Losun vegna bílalána er 0,42 tonn CO2-ígilda á hverja milljón sem er lánuð. Losun vegna lána Kviku banka á hverja milljón sem lánuð er til fyrirtækja er 0,24 tonn CO2-ígilda. Hæsta losunarkræfnin (tCO2-ígildi/ISKm) í safninu tengist lánum til fyrirtækja sem sinna vatnsveitu, fráveitu, meðhöndlun úrgangs og afmengun. Losun vegna húsnæðislána er óveruleg í samanburði við önnur lán Kviku, en losunin telur um 2 kg CO2-ígilda (0,002 tCO2-ígildi) á hverja milljón sem er lánuð. Húsnæðislán eru því að meðaltali umhverfisvænustu lánin sem samstæðan býður upp á.
Fjárfestingasafn TM telst losa um 12,25 kílótonn CO2-ígilda sem er að mestu leyti vegna fjárfestinga í ríkisskuldabréfum eða 0,46 tonn CO2-ígilda fyrir hverja fjárfesta milljón án landnotkunar (LULUCF 3). Fjárfestingar í fasteignum eru hreinustu fjárfestingar TM en losunarkræfni þeirra er 0,001 tCO2-íg./mISK. Heildar losunarkræfni fjárfestingasafns TM er 0,39 tCO2-íg./mISK.
Nánari umfjöllun um fjármagnaða losun samstæðunnar verður dregin saman í skýrslu sem verður birt á árinu 2023.
Græn fjármálaumgjörð Kviku lýsir hvernig fjármunum er úthlutað til grænna verkefna. Undir græn verkefni falla lánveitingar sem snúa að orkuskiptum í samgöngum, umhverfisvottuðum byggingum og endurnýjanlegri orku.
Græna fjármálaumgjörðin byggir á alþjóðlegum viðmiðum (Green Bond Principles) sem gefin voru út af Alþjóðasamtökum aðila á verðbréfamarkaði (International Capital Market Association – ICMA).
Viðmiðin byggja á fjórum stoðum:
Umgjörðin fékk jákvætt ytra álit frá alþjóðlega mats- og greiningarfyrirtækinu Sustainalytics og kom þar fram að umgjörðin sé trúverðug og hafi alla burði til þess að verða áhrifarík. Tekið verður mið af kröfum nýrrar reglugerðar Evrópusambandsins nr. 2020/852 (EU taxonomy for sustainable activities) í grænu umgjörðinni eins og við á þegar löggjöfin tekur gildi á Íslandi.
Í nýrri sjálfbærnistefnu Kviku og stefnu bankans um ábyrgar lánveitingar og fjárfestingar, sem er viðauki við lánareglur, eru settar fram áherslur í grænum og sjálfbærum lánveitingum. Í kjölfar stefnumótunarvinnu Kviku í sjálfbærni á árinu var fræðsla aukin til viðskiptastjóra um ábyrgar og grænar lánveitingar. Eitt af þeim verkefnum sem kom út úr stefnumótunarvinnunni og ákveðið var að ráðast í á árinu var að setja hagræna innri hvata fyrir viðskiptaeiningar bankans sem fela í sér hagstæðari innri verðlagningu á græn verkefni. Þannig vill Kvika hvetja tekjusviðin til að sækja fleiri græn verkefni og auka hlut grænna lánveitinga, sem að sama skapi styður við grænar fjárfestingar. Á árinu færðist einnig ársfjórðungsleg staðfesting grænna eigna, samkvæmt ákvæðum grænnar fjármálaumgjarðar Kviku, frá sjálfbærninefnd bankans til lánanefndar.
Eins og kemur fram í grænni fjármálaumgjörð Kviku banka, sem er í samræmi við alþjóðleg viðmið Green Bond Principles, gerir bankinn árlega skil á grænum skuldbindingum sínum. Þetta er í annað skipti sem slíkt yfirlit er gefið út sem hluti af sjálfbærniskýrslu Kviku.
Heildarstaða grænna skuldbindinga við árslok 2022 nam samtals 6.392.865.162 kr., sem má að stærstum hluta rekja til grænna skuldabréfaútgáfa Kviku í lok árs 2021 og 2022, en jafnframt til grænna framtíðarreikninga Auðar.
Öllum grænum skuldbindingum hefur verið ráðstafað innan eignaflokksins „orkuskipti í samgöngum“ í vistvæn bílalán á vegum Lykils. Með þeim hætti býr Kvika til hvata til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, en niðurstöður úr útreikningi á fjármagnaðri losun lánasafns bankans gefa til kynna að bílalán séu þau lán sem losa hvað mest.
Hluti af eignasafni Lykils eru vistvæn bílalán en árið 2021 hóf Lykill að gefa út sérstök kjör á grænum lánum. Um er að ræða raf- og vetnisbíla sem ganga fyrir 100% endurnýjanlegri orku og tengiltvinnbíla sem eru með mengunarstuðul undir 50 gCO2 samkvæmt alþjóðlegum mengunarmælikvörðum. Á árinu 2022 var ákveðið að hækka afslátt til viðskiptavina á ný lán vegna kaupa á 100% rafbílum og vetnisbílum og má sjá mikla aukningu í fjármögnun vistvænna ökutækja hjá Lykli á milli ára eða um 60% hækkun. Ljóst er að aukning hefur verið í sölu á umhverfisvænum bílum á liðnu ári og hefur Lykill boðið upp á samkeppnishæf kjör á markaðnum.
Fyrir íslenskt samfélag eru kostir þess að búa við græna raforku margvíslegir og felst það meðal annars í umhverfisvernd, lýðheilsu, efnahagslegum ávinningi og orkuöryggi. Yfirstandandi orkuskipti með rafbílavæðingu einkabíla hafa gengið vel á Íslandi síðastliðin ár. Landið er í öðru sæti á eftir Noregi í fjölda rafbíla á vegum (4,6% skv. Félagi íslenskra bifreiðaeigenda) og þar hafa hvatar stjórnvalda gegnt mikilvægu hlutverki. Skattalegar ívilnanir, til að jafna samkeppnisstöðu gagnvart bílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti, hafa auðveldað umskipti yfir í rafbíla. Fram undan eru svo orkuskipti stærri bíla en fyrstu rafknúnu vörubílarnir eru komnir á vegi landsins. Búast má við að slíkum bílum og rafknúnum rútum fjölgi hratt á næstu árum. Kvika banki mun halda áfram að leggja sitt af mörkum til að styðja við þessa jákvæðu þróun sem er mikilvægur þáttur í að ná fram kolefnishlutleysi Íslands árið 2040.
Fjármögnun vistvænna ökutækja hjá Kviku sem fellur undir grænu umgjörðina felur í sér farþegabíla, sendibíla, vörubíla, mótorhjól og vélar. Stærsti flokkurinn er farþegabílar.
Tegund ökutækis | Fjöldi ökutækja | Fjárhæð í m.kr. |
---|---|---|
Farþegabíll | 2.419 | 9.097 |
Önnur ökutæki | 109 | 204 |
Samtals | 2.528 | 9.301 |
Við mat á áhrifum fjármögnunar vistvænna verkefna eða eigna er átt við það kolefnisspor sem komið hefur verið í veg fyrir með fjármögnun þeirra (í tonnum CO2-ígilda). Sjá má áætluð áhrif (útblástur sem komið hefur verið í veg fyrir) af fjármögnun vistvænna ökutækja á árinu 2022 að neðan.
2022 | Fjöldi | Áætlaður útblástur sem komið hefur verið í veg fyrir í tCo2-ígilda |
---|---|---|
Vistvæn ökutæki | 2.528 | 2.956 |
Aðferðafræði útreiknings áhrifamælikvarða tekur mið af alþjóðlegum leiðbeiningum og stöðlum. Til þess að setja áætlaðan útblástur sem komið hefur verið í veg fyrir í samhengi þá samsvarar hann:
Kvika hagar stjórnarháttum sínum í samræmi við leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja sem gefnar voru út árið 2004 af Viðskiptaráði Íslands, Nasdaq Iceland og Samtökum atvinnulífsins. Þær voru síðast uppfærðar í febrúar 2021 (6. útgáfa) og tóku gildi í júlí 2021. Kvika fylgir einnig viðmiðunarreglum evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar (EBA) um innri stjórnarhætti fjármálafyrirtækja (EBA/GL/202/05).
Upplýsingar um helstu atriði er varða stjórnarhætti er að finna í árlegri stjórnarháttayfirlýsingu sem birt er í ársreikningi og á vef Kviku banka. Starfsemi Kviku fer að hluta til fram í gegnum dótturfélög en Kvika banki sem móðurfélag ber ábyrgð á stjórnarháttum samstæðunnar. Í stjórnarháttayfirlýsingunni má meðal annars finna upplýsingar um helstu þætti innra eftirlits, áhættustýringar og reikningsskila hjá Kviku banka.
Upplýsingar um stjórn Kviku banka má finna á vef bankans.
Siðareglur Kviku banka voru uppfærðar í byrjun árs 2022 og staðfestar af stjórn bankans.
Tilgangur siðareglna er að gera grein fyrir þeim siðferðislegu gildum sem starfsfólk styðst við í daglegum störfum sínum hjá Kviku banka. Reglurnar eru grunnviðmið góðra viðskiptahátta og ber starfsfólki að hafa þær að leiðarljósi í samskiptum sínum við viðskiptavini og aðra aðila í tengslum við störf sín fyrir hönd bankans.
Markmið siðareglnanna er að tryggja öryggi og hagsmuni viðskiptavina Kviku banka sem og annarra sem eiga hagmuna að gæta í samskiptum sínum við og í störfum sínum fyrir bankann. Einnig stuðla reglurnar að góðu starfsumhverfi og góðum starfsháttum. Siðareglurnar hjálpa jafnframt við að draga úr áhættu, einkum rekstrar- og orðsporsáhættu, en siðareglurnar eru ein af meginvörnum bankans gegn spillingu og mútum.
Kvika banki hefur sett sér reglur, viðeigandi ferla og eftirlit vegna aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka í samræmi við lög og reglur þar um. Kvika banki framkvæmir heildstætt áhættumat á starfsemi sinni og áhættuflokkar viðskiptasambönd sín á grundvelli áhættumatsins. Áreiðanleikakönnun er framkvæmd fyrir stofnun samningssambands og reglulega á líftíma viðskiptasambands í samræmi við greinda áhættu. Við reglubundið færslueftirlit nýtir Kvika kerfið Lucinity.
Kvika hefur sett sér reglur um ráðstafanir gegn hagsmunaárekstrum sem hafa það meðal annars að markmiði að auka trúverðugleika og vernda orðspor bankans. Reglunum er ætlað að koma í veg fyrir eða takast á við hagsmunaárekstra sem geta átt sér stað meðal annars í tengslum við veitingu fjárfestinga- eða viðbótarþjónustu.
Til viðbótar hafa verið settar eftirfarandi reglur og stefnur:
Ofangreindar reglur og stefnur eru settar á samstæðugrundvelli og leggja auk siðareglnanna grunn að vörnum Kviku gegn spillingu og mútum.
Kvika er með vottað stjórnunarkerfi upplýsingaöryggis samkvæmt ISO/IEC 27001 staðlinum. Kvika Securities í Bretlandi stendur þó enn utan umfangs stjórnunarkerfisins.
Stjórnunarkerfi upplýsingaöryggis snýr að því hvernig fyrirtæki koma sér upp skipulögðum vinnubrögðum og ferlum í umgengni við mikilvægar upplýsingar og kerfi. Markmið Kviku með innleiðingu stjórnunar-kerfisins er að tryggja ábyrga meðferð þeirra upplýsinga sem viðskiptavinir treysta Kviku fyrir og verja þær ásamt viðkvæmum upplýsingum er varða rekstur Kviku fyrir óviðkomandi aðilum.
Kerfið styður við innleiðingu upplýsingaöryggisstefnu Kviku en markmið hennar eru meðal annars að:
Kvika gerir kerfisbundið áhættumat til að ákveða hvort frekari ráðstafana sé þörf varðandi tiltekin gögn eða upplýsingakerfi og er upplýsingaöryggisstefna Kviku rýnd á að lágmarki tveggja ára fresti.
Lýsing | Kafli / efni | Bls. | GRI-vísar til hliðsjónar |
---|---|---|---|
Nafn skipulagsdeildarinnar | Kvika banki hf. | - | GRI 2-1 (a) |
Eignarhald og félagaform | Skráð hlutafélag | - | GRI 2-1 (b) |
Staðsetning höfuðstöðva | Katrínartún 2, 105 Reykjavík | - | GRI 2-1 (c) |
Staðsetning rekstrar | Ísland og Bretland | - | GRI 2-1 (d) |
Félög sem eru hluti af skýrslu um sjálfbærni | Kafli: Um skýrsluna | 3 | GRI 2-2 |
Tímabil og tíðni skýrslugjafar um sjálfbærni | 1. janúar – 31. desember 2022, árleg | - | GRI 2-3 (a) |
Tímabil skýrslugjafar um fjárhag | 1. janúar – 31. desember 2022 | - | GRI 2-3 (b) |
Útgáfudagur skýrslu um sjálfbærni | 15. febrúar 2023 | - | GRI 2-3 (c) |
Tengiliður fyrir skýrslu | Anna Þórdís Rafnsdóttir, kvika@kvika.is, s. 540 3200 | - | GRI 2-3 (d) |
Upplýsingar um starfsfólk | Kafli: Fólkið okkar | 17 | GRI 2-7 GRI 2-8 |